Því hefur verið haldið fram að hlutverk fjölmiðla sé að bregða svipmyndum af þeim veruleika sem almenningur upplifir frá degi til dags. Að fréttaflutningurinn þurfi að hafa skírskotun við þann veruleika.

Látum það liggja milli hluta hvað sé til í þessari fullyrðingu. Hvað sem því líður ættum við öll að geta komið okkur saman um að það sé ekki hlutverk fjölmiðla að bregða upp myndir af einhverju sem á að vera áþreifanlegt en á sér svo enga stoð í veruleikanum.

***

Fréttir bárust af því í síðustu viku að Samkeppniseftirlitið hefði gefið grænt ljós á að Myllan-Ora fengi að festa kaup á öllu hlutafé Gunnars majónes. Eigendur Myllunnar-Ora eru þeir sömu og eiga hið rótgróna útgerðarfélag Ísfélagið í Vestmannaeyjum. Fleiri fyrirtæki eru í eigu sömu fjölskyldu.

Nú hefur Gunnars majónes rambað á barmi gjaldþrots um árabil og hafa önnur félög á borð við Kaupfélag Skagfirðinga reynt að festa kaup á Gunnars en Samkeppniseftirlitið, sem gætir majónesmarkaðarins eins og sjáaldur augna sinna, kom í veg fyrir þau viðskipti.

Alla jafna telst það ekki til stórtíðinda að eitthvert félag kaupi annað félag í sambærilegri starfsemi sem hefur átt við rekstrarerfiðleika að stríða en situr hugsanlega á verðmætum í formi framleiðslutækja.

En það að Samkeppniseftirlitið veitti heimild fyrir kaupum Myllunnar-Ora á Gunnars taldist til stórtíðinda í Efstaleiti. Á mánudag var fréttaskýringaþátturinn Þetta helst í umsjón Inga Freys Vilhjálmssonar. Hann var helgaður þessum miklu tíðindum á majónesmarkaðnum.

***

En í raun og veru fjallaði fréttaskýringin um umsvif útgerðarfyrirtækja í íslensku atvinnulífi. Eitthvað sem virðist vera Inga mikið hugðarefni því hann skrifaði langa fréttaskýringu í Heimildina í desember árið 2023 um umsvif Ísfélagsins. Það sem kom fram í fréttaskýringaþætti Inga á Rás 1 bætti litlu við þá umfjöllun.

En kjarninn í þættinum var að tvær fyrirtækjablokkir eru á Íslandi og það komi meðal annars fram í að tvær útgerðir hafi skipt með sér majónesmarkaðnum á Íslandi – Kaupfélag Skagfirðinga annars vegar og Ísfélagið hins vegar. Þetta er svo sem nákvæm lýsing á heimi þeirra sem hafa aldrei heyrt minnst á Hellman‘s, Heinz eða Stokes eða þá íhugað hollari valkosti á borð við gríska jógúrt þegar kemur að köldum sósum. Í framhaldinu kvað Ingi gamalkunnug stef um hvernig kvótinn er sífellt að safnast á færri hendur og hvernig sterkustu útgerðarfélögin eru að kaupa upp allan fyrirtækjarekstur.

Fjöldi kantmanna á vinstri væng íslenskra stjórnmála deildi endursögn af fréttaskýringu Inga á vef Ríkisútvarpsins á samfélagsmiðlum og var mikið niðri fyrir. Þannig skrifaði sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason við fréttina á Facebook-síðu sinni: Þetta er eiginlega alveg ferlegt. Fjöldi manns tók undir þetta á vegg sjónvarpsmannsins. Þeirra á meðal var Gauti B. Eggertsson, hinn yfirvegaði og hófstillti hagfræðiprófessor við Brown-háskólann í Bandaríkjunum, sem varaði sterklega við því að samþjöppun á eignarhaldi útgerðarmanna á íslenska majónesmarkaðnum kynni að kalla yfir þjóðina efnahagslegar hörmungar á borð við þær sem bankaútrásin leiddi af sér.

Þessi færsla Gauta hleypti honum kapp í kinn og skrifaði hann svo langa færslu á Facebook-vegg sínum. Þar gagnrýndi hann Samfylkinguna harðlega fyrir að hafa ekki sömu stefnu og hann í sjávarútvegsmálum og bætti því við að meint „hatursherferð“ gagnvart Degi bróður hans væri runnin undan rifjum útgerðarmanna sem væru hræddir við borgarstjórann fyrrverandi þar sem hann berst fyrir sjávarútvegsstefnu Gauta bróður síns en ekki Samfylkingarinnar. En það er önnur saga.

***

Við þetta er eitt og annað að athuga. Í fyrsta lagi er varla hægt að tala um neina sérstaka samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi. Fimm stærstu félögin fara með um 37% af úthlutuðum aflaheimildum. Það finnst varla önnur atvinnugrein á Íslandi þar sem fimm stærstu félögin fara aðeins með 37% af markaðnum.

Taki menn ekki fjölmiðlarýni Viðskiptablaðsins trúanlegan má benda á þau viðmið sem Samkeppniseftirlitið styðst við. Þegar samþjöppun í sjávarútvegi er reiknuð út frá Herfindahl-Hirschman vísitölunni sem Samkeppniseftirlitið styðst gjarnan við sést að merkilega lítil samþjöppun er í íslenskum sjávarútvegi þegar allt kemur til alls. Vísitalan er reiknuð summa markaðshlutdeildar einstakra fyrirtækja í öðru veldi, margfölduð með 10.000. Þar sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki selja nánast allar sínar afurðir á heimsmarkað er hlutdeild þeirra hverfandi. En þegar tekið er tillit til úthlutaðra aflahlutdeilda kemur í ljós að vísitalan er 391. Hið almenna viðmið er að þegar vísitalan er yfir 1500 stig þá sé það merki um lítillega samþjöppun.

Í öðru lagi er rétt að halda því til haga hversu lítill hluti íslensks atvinnulífs er í raun og veru í eigu einkaaðila. Frjáls verslun, systurmiðill Viðskiptablaðsins, gefur út árlega bókina 500 stærstu en þar er eins og nafnið gefur til kynna fjallað um stærstu fyrirtæki landsins og helstu lykiltölur í rekstri þeirra.

Úrtak með 500 stærstu fyrirtækjum landsins nær yfir meira en 90% af efnahagslífinu.Af því má sjá af þeim tölum að aðeins 37% af eigin fé í íslensku atvinnulífi er í eigu íslenskra einkafyrirtækja. Hið opinbera á tæplega 32% af öllu eigin fé, erlendir aðilar tæplega 17% og lífeyrissjóðir tæplega 16. Þessi hlutföll hafa lítið breyst undanfarin áratug.

Það verður því seint sagt að einkageirinn sé að sölsa sig undir Ísland. Enn síður útgerðarfyrirtæki á borð við Ísfélagið. Hlutdeild þess og annarra félaga í þeirra eigu, í samanlögðu eigin fé íslenska efnahagslífsins, var 1,9% á árinu 2023 og hafði hækkað úr einu prósenti árið 2022. Það telst seint vísbending um að Ísfélagið sé að kaupa upp allt Ísland. Hlutfall Kaupfélags Skagfirðinga í samanlögðu eigin fé 500 stærstu fyrirtækja Íslands er um eitt prósent. Vilji menn horfa til annarra mælikvarða má svo benda á að hlutfall ársverka Ísfélagsins og tengdra félaga er 1,1% af heildarársverkum 500 stærstu fyrirtækja Íslands. Það er sama hlutfall og hjá Kaupfélagi Skagfirðinga.

Þó að bæði Ísfélagið og Kaupfélag Skagfirðinga séu stöndug fyrirtæki verður þeim seint líkt við kolkrabba sem teygir anga sína utan um alla þætti íslensks atvinnulífs.

***

Það er umhugsunarefni hvernig stjórnmálaöflum á borð við Viðreisn og Vinstri græna hefur tekist að tortryggja það þegar arðbær fyrirtæki fjárfesta í annarri atvinnustarfsemi. Slíkt er einn af grundvöllum að gangvirki frjáls markaðar og skilvirk leið til þess að veita fjárfestingu til frekari vaxtar hagkerfisins.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 22. janúar 2025.