Upp er komin flókin en fyrirsjáanleg staða í Reykjavík. Hinn fallni meirihluti hefur verið ósamstíga í mörgum stórum álitamálum og var lengi ljóst að uppúr myndi sjóða að endingu. Það kann enda ekki góðri lukku að stýra að sameinast um völd en ekki málefni.
Ekki verður búið við núverandi ástand til lengdar. Enginn starfandi meirihluti er í borginni og gangverk borgarkerfisins því stjórnlaust rekald. Staðan er sannarlega flókin en við slíkar aðstæður er ábyrgðarhluti að mynda starfhæfan og stöðugan meirihluta um mikilvæg verkefni. Sjálfstæðisflokkurinn er sannarlega reiðubúinn að axla þá ábyrgð og taka til hendinni við stjórn höfuðborgarinnar.
Húsnæðismál, fjármál og leikskólamál
Fimmtán mánuðir eru eftir af kjörtímabilinu og því skammur tími til stefnu. Æskilegast væri að mynda meirihluta sem næði árangri og samstöðu um stóru málin: fjármál borgarinnar, húsnæðismál, samgöngumál og leikskólamál.
Ráðast þarf í löngu tímabæra tiltekt í fjármálum borgarinnar, sem fela myndi í sér skipulagsbreytingar, niðurskurð, frekari útvistun verkefna og eignasölu. Stórsókn í húsnæðisuppbyggingu mun reynast nauðsynleg en óhugsandi verður að svara þörfum á húsnæðismarkaði án þess að brjóta nýtt land. Leikskóla- og daggæslumál hafa jafnframt verið í lamasessi og mikilvægt að setja lausn þeirra í forgang.
Samgönguvandi borgarinnar vex ár frá ári og mörg áþreifanleg tækifæri til úrbóta. Þess þarf að gæta að engar hindranir verði í vegi Sundabrautar, sem mun reynast gríðarleg samgöngubót fyrir Reykjavík og nærliggjandi sveitarfélög. Þá þarf viðhorfsbreytingu í borginni í þá átt að kreddur ýmiss konar standi ekki í vegi fyrir skynsamlegum lausnum. Flugvallarmálið er skýrt dæmi í þeim efnum.
Reykjavík hefur alla burði til að verða borg tækifæranna. Við þurfum að varðveita sérkenni höfuðborgarinnar en gæta þess að hún þróist í takt við aðrar vestrænar borgir – og verði ekki undir í samkeppni um ungt fólk og atgervi. Við þurfum að skapa undirstöður og forsendur fyrir hugmyndaauðgi og framtak að blómstra – svo hér drjúpi atvinnutækifæri af hverju strái.
Það er ákall eftir bráðaaðgerðum í borginni, og við slíkar aðstæðar þurfa stjórnmálaflokkar að finna til ábyrgðar. Sjálfstæðisflokkurinn er reiðubúinn í samstarf við þá flokka sem geta sameinast um stóru viðfangsefnin á vettvangi borgarinnar. Nýr meirihluti þarf að snúast um málefni og verkefni, en ekki völd og vegtyllur.
Fyrir fólkið og fyrirtækin
Sjálfstæðisflokkurinn vill skapa borg sem virkar fyrir fólk og fyrirtæki. Höfuðborg, þar sem fólk getur leitað hamingjunnar á eigin forsendum. Við viljum borgarumhverfi sem setur fjölskyldur í forgang og velferðarþjónustu sem tryggir rétt sérhvers einstaklings til að lifa með reisn.
Við viljum skapa borgarumhverfi sem laðar að sér hæfileikafólk með úrvali atvinnutækifæra, spennandi búsetukostum, iðandi menningarlífi og fjölbreyttum samgöngukostum. Við viljum borg sem ryður veginn fyrir þá sem vilja sækja fram og styður við hugmyndaauðgi og verðmætasköpun – kerfi sem hefur að markmiði að leggja fólki lið, en ekki leggja stein í götu þess. Höfuðborg sem byggist á frjálsum valkostum, jöfnum tækifærum, frjálsu framtaki og hagkvæmum rekstri. Við viljum Reykjavík sem virkar.
Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.