Fyrir fólk eins og mig sem hefur gaman að óreiðu og upplausn hafa þessir fyrstu dagar ríkisstjórnarinnar verið ævintýralegir.

Ég get eiginlega ekki gert upp á milli hvað er skemmtilegast. Hvort það er styrkjamálið og hvernig Ingu Sæland gæti ekki verið meira sama yfir að hafa þegið almannafé á röngum forsendum í langan tíma. Hvernig Inga hafði ekki setið nema í eina mínútu í ráðherrastól þegar hún var farin að hringja og hóta fólki með stöðu sinni og samböndum. Eða hvernig fyrsta málið sem kom fram úr plani Samfylkingarinnar sé auknar strandveiðar, sem einungis örlítill hluti þjóðarinnar hagnast á, en gríðarlega stór hluti þingmanna Flokks fólksins. Í raun tapar þjóðin á þeim eins og fjármálaráðherra og oddviti Viðreisnar í Norðausturkjördæmi hafa bent á í greinum.

RÚV auðvitað segir ekki orð en Morgunblaðið hefur dregið vagninn og fengið yfir sig fúkyrðin, enda þekkt fyrir almenn leiðindi við ráðandi stéttir og kjaftfora frambjóðendur og þá sérstaklega síðustu mánuði. Ungt Viðreisnarfólk sem hefur oftast verið á siðferðislega hæsta hestinum hefur líka þagað þunnu hljóði, enda auðvitað margt í mörgu og lengi von á einum þegar þinn eigin flokkur er kominn að kjötkötlunum. Svo sannarlega hafa aðdáendur ringulreiðar og mótsagna fengið mikið fyrir sinn snúð síðan ringulreið jólanna gekk yfir. Það veit á gott fyrir aðdáendur slíkrar afþreyingar, en síður fyrir fólkið í landinu sem lét lofa sér að vinstriflokkur gæti gert annað en hækka skatta og moka undir flokksmenn háværra ráðherra.

Kristrún Frostadóttir sagði í Kryddsíldinni að Flokkur fólksins væri fullgildur meðlimur í ríkisstjórninni. Hvort hún muni komi fram við flokkinn sem slíkan á eftir að koma í ljós. Ég get í öllu falli ekki beðið eftir að þing komi saman.