Það er fagnaðarefni að búið sé að skrifa undir kjarasamninga við stóran hóp launþega á hinum almenna vinnumarkaði. Af þessu tilefni ræddu þeir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ, við Baldvin Þór Bergsson í Kastljósinu á mánudagskvöldið.
Það vakti sérstaka athygli að Baldvin Þór spurði Kristján Þórð hvort hann hefði ekki samið af sér sökum þess að hækkanir kjarasamninganna dugi ekki til að vega móti á þeim hækkunum sem hafa orðið vegna vaxta- og verðlagsþróunar undanfarið ár. Afhjúpar þetta sérstaka sýn þáttastjórnandans á gerð kjarasamninga.
Hvað um það. Öllum var ljóst að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, var afar ósáttur við að samningar náðust. Hann strunsaði út úr húsakynnum eftir að samningar voru undirritaðir. Fréttablaðið upplýsti að Ragnar hefði orðið undir í stjórn félagsins. Aðeins Ragnar og einn annar stjórnarmaður vildu ekki skrifa undir kjarasamninga.
Ragnar var svo mættur í morgunþátt Bylgjunnar á þriðjudag. Eins og svo oft áður vísaði Ragnar til ítarlegrar greiningarvinnu VR á afkomu íslenskra fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum. Að sögn hans sýnir sú greining að nánast öll fyrirtæki eru aflögufær og ríflega það þegar kemur að launahækkunum. Hvers vegna hafa fjölmiðlar ekki gengið eftir því að fá aðgang að þessum gögnum? Enn áleitnari spurning er svo hvort þeir stjórnarmann VR sem vildu ganga að samningunum hafi ekki séð niðurstöðu þessarar vinnu?
***
Hafi einhver verið að velkjast í vafa um hvort leikkonurnar Vala Kristín Eiríksdóttir og Júlíana Sara Gunnarsdóttir séu vinkonur voru tekin af öll tvímæli um það liðna helgi. Þá birti bæði Fréttablaðið og Morgunblaðið opnuviðtöl við Völu og Júlíönu þar sem það kom skýrt fram að þær væru ekki bara vinkonur heldur mjög góðar vinkonur.
Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 15. desember 2022.