Sú arðsemiskrafa sem fjárfestar gera til leiguhúsnæðis er um 5% á meðan krafa til hlutabréfa er 4% en rúmlega 7% til ríkisskuldabréfa.

Árlega hefur verið fjallað um hér í Viðskiptablaðinu samanburð á þeim helstu innlendu kostum sem standa íslenskum fjárfestum til boða. Grundvallast samanburðurinn af því verðmæti sem fjárfestar í heild eru tilbúnir til að láta af hendi rakna fyrir þá arðsemi sem af eigninni hlýst. Sammæli hefur verið um litlar breytingar á arðsemiskröfu til fasteigna og ríkisskuldabréfa frá áramótum en talin þörf á aukinni arðsemi hlutafélaga.

Myndin sýnir hlutfall virðis á móti hagsveifluleiðréttum hagnaði frá árinu 1995 annars vegar fyrir þau hlutabréf sem mynda Úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands (OMXI15) og hins vegar íbúðarhúsnæði. Til samanburðar inniheldur grafið ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa til fimm ára. Skyggð svæði tákna tímabil þar sem annað hvort samdráttur átti sér stað í hagkerfinu eða hagvöxtur reyndist minni en 1%. Glöggir lesendur þekkja að nýlegar þjóðhagsspár gefa til kynna skuggsýnt líðandi ár.

Frá árinu 2021 hafa hlutabréf átt undir högg að sækja eftir mikið uppgangstímabil árið á undan. Í kjölfar þess að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands færði meginvexti bankans niður fyrir 1% í nóvember árið 2020 tóku vextir að hækka og hafa nú haldist óbreyttir 9,25% í hartnær 11 mánuði. Mikil áhættulítil ávöxtun getur reynst mörgum freistandi og seig virði OMXI15 samhliða sviptingunum eða um þriðjung frá haustinu 2021 þegar vísitalan reis hæst til dagsins í dag. Arðsemiskrafa fjárfesta til hlutabréfa fór ekki varhluta af þessari þróun líkt og myndin ber með sér heldur lækkaði hlutfall virðis á móti hagnaði úr liðlega 51 árið 2021 í um 24 og nálgast nú sögulegt meðaltal. Með öðrum orðum gerðu fjárfestar tilkall til meiri arðsemi og hækkuðu kröfu sína á tímabilinu úr fast að tveimur prósentum í liðlega 4%. Til samanburðar er meðaltal áranna 1995 til 2019 um 4,4%.

Þessu er ólíkt háttað með þróun kröfunnar á fasteignamarkaði þar sem dramatík virðist síður hafa ráðið för. Þannig virðist næmni fjárfesta gagnvart vaxtabreytingum minni þar sem þeir hafa haldið sig við rótgróna 5% arðsemiskröfu á fyrrgreindu tímabili. Ólíkt þróun Úrvalsvísitölunnar hefur virði fasteigna aftur á móti hækkað um nærri þriðjung frá haustmánuðum 2021.

Það sem tengir eignamarkaði eru vextir eða krafa um arðsemi. Áhættulítil óverðtryggð ríkisskuldabréf til fimm ára ganga nú kaupum og sölum á 7% ávöxtunarkröfu sem er hærra en fjárfestar gera til hlutabréfa og fasteigna. Nýlegar spár Íslandsbanka og Arion banka fyrir meginvexti næstu þriggja ára styðja við réttleika kröfunnar ólíkt nýjustu spá Seðlabankans sem gefur til kynna ríflega prósentu lægri kröfu.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.