Undanfarin ár hefur verið fjallað um verðlagningu á íslenskum eignamörkuðum í Viðskiptablaðinu. Umfjöllunin er liður í að upplýsa lesendur blaðsins um samanburð milli markaðanna og yfir tíma.

Arðsemiskrafa til hlutabréfa um mitt þetta ár var 4% ef miðað er við hagsveifluleiðréttan hagnað þeirra hlutafélaga sem mynda Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar (OMXI15) og fast að 5% ef miðað er við hagnað félaganna síðastliðna tólf mánuði.  Sambærileg arðsemiskrafa til fasteigna er um 5% og hefur hún haldist nálægt því frá og með árinu 2017 samhliða fimmtungshækkun leigutekna að raunvirði.

Myndin sýnir hlutfall virðis hlutabréfa OMXI15 á móti hagsveifluleiðréttum hagnaði, virði fasteigna á móti leiguhagnaði og ávöxtunarkröfu til 5 ára óverðtryggðra ríkisskuldabréfa (OMXI5YNI) samkvæmt KODIAK. Gögnin ná aftur 30 ár og sýna lesanda hvernig þróun verðlagningar reyndist á tímum uppsveiflu og niðursveiflu (skyggðu svæðin). Því hærri sem hlutföllin eru fyrir hlutabréf og fasteignir því lengri tíma tekur það fjárfesti að endurheimta upphaflegt virði fjárfestingar sinnar, m.ö.o. arðsemiskrafan er lægri miðað við hagnað.

Verðlagning markaðsaðila á hlutabréfum hefur farið lækkandi frá árinu 2021 sem skýrist af lækkun virðis félaga í OMXI15 og endurspeglast í að vísitalan hefur lækkað um 11,4% að raunvirði á tímabilinu á meðan hagnaður jókst um liðlega fimmtung að raunvirði. Lesandi þekkir að verðmatslíkön (stöðustærð) og lán til hlutabréfakaupa (flæðistærð) miðast við ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa, og að hún hefur hækkað úr 3,94% þann 30. desember 2021 í 7,24% síðastliðinn 7. júlí. Líkt og sést á myndinni hefur vaxtastig haft áhrif á verðlagningu eigna. Fjárfestar dvelja til lengri tíma en einnar nætur þegar ljóst er að 7% áhættulítil ávöxtunarkrafa stendur til boða samanborið við lægri kröfu til áhættumeiri hlutabréfa.

Vextir eru grunnurinn að verðlagningu í hagkerfinu. Í kjölfar þess að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði meginvexti bankans 14 sinnum úr 0,75% í maí 2021 í 9,25% í ágúst 2023 hóf nefndin loks lækkunarferli sitt í október síðastliðnum og eru þeir nú 7,5%. Í sínum nýjustu þjóðhagsspám spá greiningardeildir Arion banka og Íslandsbanka nánast sömu þróun meginvaxta næstu ár og að þeir verði að jafnaði 5,3% árið 2027. Yfirfæra má vaxtaspár þessara aðila í 5,85% ávöxtunarkröfu til 5 ára óverðtryggðra ríkisskuldabréfa. Aftur á móti er ávöxtunarkrafa markaðsaðila mun hærri eða 7,24%.

Fari svo að verðlagning taki meira mið af ávöxtunarkröfu markaðsaðila og væntingum þeirra um hærra vaxtastig má fastlega gera ráð fyrir að arðsemiskrafa fari hækkandi og hlutfall virðis á móti hagnaði lækkandi. Slík þróun bendir aftur á móti til að það styttist í tækifæri á þeim mörkuðum.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.