Týr sér að oddvitar Samfylkingarinnar og Viðreisnar sniðgengu framboðsfund sem fór fram á Selfossi í gærkvöldi. Fundurinn var haldinn á samkomustaðnum Sviðinu og höfðu staðarhaldarar þar fengið Stefán Einar Stefánsson fjölmiðlamann til þess að stýra umræðunum.
Í færslu á samfélagsmiðlum sem Stefán Einar birti í morgun segir hann að systurflokkarnir tveir hafi ákveðið fyrr í vikunni að mæta ekki kjósendum sínum og þeim sem berjast við þá um atkvæði fyrra. Ekki nóg með það þá fullyrðir Stefán í færslu sinni að kosningastjóri Samfylkingarinnar hafi hringt í fulltrúa annarra flokka og hvatt þá til að sniðganga fundinn líkt og Samfylking og Viðreisn ætluðu að gera. Flokkur fólksins, Píratar, Sósíalistar og Vinstri grænir hlýddu kallinu.
Sanngjarn en harður í horn að taka
Enginn vafi liggur á að þessir flokkar hafi sniðgengið fundinn út af Stefáni Einari. Hann hefur leikið mikilvægt hlutverk í kosningabaráttunni með ágengum en sanngjörnum spurningum í þætti sínum Spursmálum. Minnir framganga Stefáns um margt á Jeremy Paxman, hinn þekkta breska spyril og blaðamann, sem lét viðmælendur sína aldrei komast upp með neinn moðreyk. Þó svo að Stefán sé beinskeyttur þá er hann háttvís og kurteis.
Flestir stjórnmálamenn og kjósendur fagna slíkri blaðamennsku en hún er auðvitað nauðsynlegur þáttur í stjórnmálaumræðu sem eitthvað gagn á að vera. En svo virðist að frambjóðendur ofangreindra flokka forðist hana og geri þar með lítið úr kjósendum sínum.
Slæmar fyrirmyndir
Tý þykir þetta ekki gefa fögur fyrirheit fyrir yfirvofandi stjórnarsamstarf Samfylkingarinnar og Viðreisnar. Minnir þetta um margt á framferði fjölda þingmanna og fylgitungla Samfylkingar og Vinstri grænna haustið 2009 þega þeir ákváðu að sniðganga Morgunblaðið og svara ekki símtölum frá blaðamönnum þess.
Það er nöturlegt til þess að hugsa að frambjóðendur Samfylkingarinnar og Viðreisnar telji þetta vera æskileg fyrirmynd og í raun og veru vanvirðing gagnvart kjósendum.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.