Orka er undirstaða hagsældar – sterkt samhengi er á milli orkunotkunar þjóða og þeirra verðmæta sem þær skapa. Þau lönd sem búa við hagkvæma orku standa fremst meðal þjóða þegar kemur að lífskjörum. Ísland er þar engin undantekning. Orkunotkun á Íslandi er mikil og endurspeglast það í góðum lífskjörum.

Samhljómur á meðal atvinnulífs, almennings og stjórnvalda

Yfirgnæfandi meirihluti almennings og atvinnulífs er hlynntur aukinni grænni orkuframleiðslu á Íslandi. Í rannsókn sem gerð var fyrir Samtök atvinnulífsins í aðdraganda síðasta ársfundar samtakanna kom fram að 91% atvinnulífs og 83% almennings eru fylgjandi aukinni grænni orkuframleiðslu.

Þegar fulltrúar atvinnulífsins voru spurðir af hverju þeir væru hlynntir aukinni orkuöflun nefndu 75% til að tryggja tækifæri til verðmætasköpunar, 72% til að halda orkuverði til almennra notenda lágu, 65% til að draga úr innflutningi jarðefnaeldsneytis, 59% til að stuðla að orkuskiptum og 52% til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Það er því ánægjulegt að í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er lögð áhersla á orkuöflun og einföldun regluverks, að greiða götu tæknilausna og nýsköpunar á sviði loftslagsmála.  Það er von atvinnulífsins að ráðherra orkumála verði einn afkastamesti ráðherra nýrrar ríkisstjórnar.

Græn hagkvæm orka er lykilforsenda

Á heimsvísu er orkunotkun langstærsti orsakavaldur losunar gróðurhúsalofttegunda, hún skýrir hátt í þrjá fjórðu af allri losun. Þess vegna eru orkuskipti stærsta loftslagsverkefnið á heimsvísu. Ísland var á undan sinni samtíð að slíta í sundur sambandið á milli orkunotkunar og kolefnislosunar. Það er staðreynd sem við getum verið stolt af en hún gerir okkur jafnframt erfiðara fyrir að ná sama hlutfallslega árangri í samdrætti losunar og önnur lönd.  Færi öll framleiðsla á heimsvísu fram með sama kolefnisspor á framleidda einingu og íslensk framleiðsla, myndi kolefnisspor mannsins eingöngu vera tæpur þriðjungur af núverandi losun.

Ísland hefur þegar farið í gegnum tvenn orkuskipti, fyrst þegar rafmagnsframleiðsla hófst með vatnsafli, önnur þegar jarðhiti var notaður í stað olíu til húshitunar og þriðju orkuskiptin munu verða til þess að einungis græn endurnýjanleg orka verði notuð á Íslandi.

Sýn atvinnulífsins alveg skýr, íslenskt atvinnulíf vill ná árangri í loftslagsmálum og bæta lífskjör, ekki annað hvort heldur bæði. Íslenskt atvinnulíf hefur nú þegar sett fram einhverja metnaðarfyllstu áætlun sem gerð hefur verið í loftslagsmálum, Loftslagsvegvísana, sem skila 83% af skuldbindingum Íslands um samdrátt í losun og þar vega þyngst tillögur í vegasamgöngum, sjávarútvegi, mannvirkjagerð og jarðvarmavirkjunum.

Áætlanir atvinnulífsins byggja á þeim lykilforsendum að græn hagkvæm orka og samkeppnishæfni atvinnulífsins sé til staðar. Það þarf að vera eftirsóknarvert á Íslandi að reka arðbær fyrirtæki sem hafa getu til þess að fjárfesta í uppbyggingu, skapa spennandi störf og stunda nýsköpun, rannsóknir og þróun lausna sem stuðla að grænni umbreytingu.

Samkeppnisforskot tapast

Staðreyndin er sú að samkeppnishæfni Íslands fer dvínandi þegar kemur að grænni og hagkvæmri orku. Skerðingar á raforku til atvinnustarfsemi eru nánast orðnar að árlegum viðburði með tilheyrandi auknum innflutningi á jarðefnaeldsneyti  og þjóðhagslegu tapi.  Vísbendingar eru um að viðvarandi orkuskortur sé að valda hækkandi raforkuverði á íslenskum raforkumarkaði. Samkeppnisforskot Íslands þegar kemur að grænni verðmætasköpun fer því dvínandi. Kyrrstaða hefur ríkt í orkuöflun á undanförnum áratugum, þó breyting hafi orðið á nýverið. Áður en ný ríkisstjórn tók við völdum voru farin af stað verkefni, eftir langt tímabil aðgerðaleysis, sem bentu til þess að aukinn kraftur væri að færast í orkumálin. Halda verður áfram á þeirri braut til þess að forðast annað bakslag í orku- og loftslagsmálum.

Gögnin sýna okkur að við þurfum að tvöfalda græna orkuframleiðslu á Íslandi til þess að ljúka orkuskiptum að fullu og standa undir aukinni verðmætasköpun. Orkuskiptin munu krefjast aukinnar orkuöflunar fyrr en síðar. Núverandi orkuframleiðsla stendur í um 20 TWst á ári. Ætlum við að ná markmiðum um kolefnishlutleysi árið 2050 þyrfti orkuframleiðsla að aukast um 22 TWst samkvæmt spá Landsnets.  Aukin orkuþörf er fyrst og fremst vegna fyrirhugaðra orkuskipta en mannfjöldaaukning með tilheyrandi auknum umsvifum í atvinnustarfsemi kallar einnig á meiri orku.

Skattlagning skilar okkur ekki í mark

Þrátt fyrir góðan vilja þá sýna gögnin að til þess að standast loftslagsmarkmið Íslands árið 2030 þá þurfum við að margfalda hraða losunarsamdráttar og með hliðsjón af tækniþroska í lykilgeirum þá er markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 sem fest var í lög, utan seilingar.

Grænum sköttum er ætlað að stuðla að breyttri hegðun en þeir mega sín lítils ef græna orkan eða græna tæknin er ekki til staðar. Þá er um hreina skattlagningu að ræða án þess að möguleiki sé á því að breyta um hegðun. Ótímabær skattlagning dregur úr getu fyrirtækja til að fjárfesta í hagkvæmum grænum lausnum og leiðir til þjóðhagslegs taps. Ofurskattlagning á undirstöðuatvinnugreinar landsins gerir það líka.

Raunhæf markmið í loftslagsmálum sem taka mið af tækniþróun, hámarka hagkvæmni og styðja við vegferðina eru lausnin. Það þarf að tímasetja græna skattlagningu þannig að hún sé til þess fallin að þjóna markmiðum sínum – þannig að hún sé í takt við aukna orkuöflun og tækniþróun í atvinnulífinu. Tryggja þarf að þeir fjármunir styðji við orkuskipti atvinnugreina með innviðauppbyggingu og hvötum til nýsköpunar og innleiðingar grænna lausna.

Verum samtaka um græna orku, grænar lausnir og aukna hagsæld.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í sérblaðinu Samorkuþing 2025.