Nafn opinberra stofnana segir ekkert til um hvort starf þeirra og erindi gagnist skattgreiðendum á nokkurn hátt. Þrátt fyrir þessu augljósu sannindi virðist þessi hugsun vera flestum stjórnmálamönnum framandi.

Nafn opinberra stofnana segir ekkert til um hvort starf þeirra og erindi gagnist skattgreiðendum á nokkurn hátt. Þrátt fyrir þessu augljósu sannindi virðist þessi hugsun vera flestum stjórnmálamönnum framandi.

Meirihluti þingmanna samþykkti þannig á dögunum frumvarp um stofnun Mannréttindastofnunar og tala margir þeirra um að með þessu séu mannréttindi með einhverjum hætti tryggð enn frekar í sessi. Staðreynd málsins er að þessi nýja ríkisstofnun - Mannréttindastofnun Vinstri grænna eins og sumir kalla hana - gegnir sambærilegu hlutverki og Umboðsmaður Alþingis sem er einmitt sú stofnun sem fær mál á sitt borð er tengjast brotum á mannréttindum á borð við atvinnufrelsi sem meirihluti þingmanna skeytir lítið um.

Mannréttindi eru kirfilega tryggð í réttarfari hér á landi og nú þegar eru stofnanir á vegum ríkisins sem fylgjast með að svo sé. Mannréttindi aukast ekki með fjölgun ríkisstofnana en hins vegar eykst kostnaður skattgreiðenda.

Þeir sem á þetta benda eru ekki andstæðingar mannréttinda eða þess réttarfars sem ríkir á landinu. Eigi að síður er það viðkvæðið sem mætir þeim sem gagnrýna málið.

Þetta er sambærilegt við þá umræðu sem ríkt hefur um samkeppnismál hér á landi. Á hinum pólitíska vettvangi eru þeir sem gagnrýna störf Samkeppniseftirlitsins – gagnrýnin kemur ekki frá atvinnulífinu sökum ótta stjórnenda við afleiðingarnar – sakaðir um að vera andvígir heilbrigðri samkeppni.

Þessi ódýri málflutningur er oftar en ekki notaður til þess að rökstyðja þá fráleitu skoðun að einhver tengsl séu á milli fjárveitinga til Samkeppniseftirlitsins og heilbrigðis samkeppnisumhverfis hér á landi.

Því fer fjarri lagi. Þvert á móti má halda því fram að fjárheimildir standi Samkeppniseftirlitinu ekki fyrir þrifum heldur stjórn og áherslur stofnunarinnar. Samkeppniseftirlitið eyðir tíma og fjármunum stofnunarinnar og þar af leiðandi atvinnulífsins með allt öðrum hætti en þekkist í öðrum Evrópuríkjum.

Í grein sem Heiðrún Lind Marteins-
dóttir, framkvæmdastjóri SFS, og María Kristjánsdóttir, lögmaður hjá Lex, skrifuðu í Viðskiptablaðið í síðustu viku er meðferð samrunamála hér á landi borin saman við meðferð slíkra mála í öðrum ríkjum. Þar segir:

Í ljós kom að í bæði Noregi og ESB voru 2-3% tilkynntra samruna færð í svokallaðan fasa II, sem felur í sér lengri málsmeðferð, á meðan hlutfallið hér á landi var að meðaltali tæp 44%. Þá vakti einnig athygli að Samkeppniseftirlitið hér á landi hafði til afgreiðslu fleiri mál í fasa II öll fjögur árin sem skoðuð voru en sú stofnun sem fór með lögsögu á hinum stóra sameiginlega innri markaði ESB.“

Hvarfli að einhverjum að hið háa hlutfall hér á landi endurspegli brotalamir á samkeppnisumhverfinu ættu þeir sömu að hafa í huga að meðal þeirra mála sem Samkeppniseftirlitið hefur eytt miklum tíma í að skoða undanfarin misseri er hvort majónes geti verið staðkvæmdarvara fyrir kaldar grillsósur, hvort kaupa megi ónýtt prentverk til að nota í varahluti og að ógleymdu að færa framleiðslu Ladda-sósu Hamborgarafabrikkunnar frá einum aðila til annars.

Það er rannsóknarefni að einhverjir stjórnmálamenn telji þetta tilefni til að auka fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins enn frekar í stað þess að staldra við og velta fyrir sér á hvaða vegferð stofnunin sé.

Í lok greinar sinnar skrifa Heiðrún og María:

Líkt og vikið var að í upphafi, eru engar efasemdir um mikilvægi samkeppnislaga. Markmiðum þeirra laga verður hins vegar ekki náð ef eftirlit er óskilvirkt. Það bæði grefur undan trausti á löggjöfinni sjálfri og starfsemi Samkeppniseftirlitsins.“

Þetta er rétt athugað og á við fleiri stofnanir en Samkeppniseftirlitsins. Óskandi er að hægt væri að hefja umræðu um eftirlitsiðnað ríkisins á þessum forsendum. Löggjöfin er að stærstum hluta skynsamleg en það má velta má fyrir sér að hvaða leyti stofnanabáknið er farið að grafa undan markmiðum hennar.

Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 26. júní 2024.