Eins og fram hefur komið þá þykir Tý ákaflega skemmtilegt að majónesmennirnir í Samkeppniseftirlitinu haldi því fram við fjárlaganefnd að samkeppniseftirlit á Íslandi sé í uppnámi þar sem fjárveitingar hafa ekki fylgt hagvexti undanfarin ár. Það er að segja þá telja stjórnendur eftirlitsins að fjárframlög þurfi að vera ákveðið hlutfall af landsframleiðslu.
Þetta er álíka skemmtilegt og fullyrðingar forráðamanna að starfsemi Samkeppniseftirlitsins skili samfélaginu um 20 milljarða á ári í efnahagslegan ábata.
Miðað við þetta ætti lykillinn að vexti og viðgangi íslensks efnahagslífs felast í síauknum framlögum ríkisins til Samkeppniseftirlitsins. Grundvallarhugsunin að baki þessu er auðvitað að tilvera heimila og fyrirtækja í landinu byggi á starfsemi Páls Gunnars Pálssonar forstjóra SKE en ekki öfugt.
Trúgjarnir þingmenn hafa gleypt við þessu. Þannig skrifar Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir helsti sérfræðingur Viðreisnar í efnahagsmálum á Vísi í vikunni:
„Það ætti að valda okkur öllum miklum áhyggjum að ríkisstjórnin hunsi algjörlega neyðarkall Samkeppniseftirlitsins. Með því tekur ríkisstjórnin sér beinlínis það hlutverk að veikja innviði virkrar samkeppni á landinu í aðdraganda kjarasamninga og stöðu gegn hagsmunum neytenda.“
Afrekin fjölmörg og Ladda-sósunni borgið
Stór orð. En kannski skiljanleg þegar litið er til helstu afreka Samkeppniseftirlitsins á árinu. Þau eru:
- Viðamikil úttekt eftirlitsins á majónesmarkaðnum á Íslandi
- Sjá til þess að Múlakaffi tók að sér framleiðslu Ladda-sósunnar úr höndum Gleðipinna, við kaup KS á síðarnefnda fyrirtækinu,
- Að franskir lífeyrisþegar fengu tíu milljarða króna frá Símanum vegna sölunnar á Mílu.
Mun meira eftirlit á Íslandi sé miðað við landsframleiðslu
En hvernig líta fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins út í samanburði við Noreg og Svíþjóð? Sá samanburður lítur ekkert sérstaklega vel út þegar litið er til stærðar og landsframleiðslu eins og sérfræðingar eftirlitsins vilja gera. Það sýna tölur úr ársreikningum og frá Eurostat og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Þegar miðað er við verga landsframleiðslu sést að íslenska samkeppniseftirlitið er margfalt stærra að umsvifum en eftirlitið í Skandinavíu. Sé landsframleiðsla deilt á hvern starfsmann fær maður út að starfsemin er mun viðameiri hér á landi en í Noregi og Svíþjóð.
Hugsanlega er það vegna þess að frændur okkar hafa látið majónesmarkaðinn óáreittan en það er önnur saga. Ef miðað við sé landsframleiðslu ættu starfsmenn Samkeppniseftirlitsins að vera fjórir til að vera svipað að umfangi og eftirlitið í Noregi en sjö til þess að vera á pari við Svíana.
Einnig leiðir samanburður í ljós að hér á landi eru mun fleiri starfsmenn hjá Samkeppniseftirlitinu miðað við fjölda fyrirtækja og gildir einu til hvaða stærðarflokks fyrirtækja er horft í þeim efnum.
Skoðum gögnin
Týr vonar að nefndarmenn í fjárlaganefnd kynni sér þessar tölur þegar beiðni Samkeppniseftirlitsins um enn meiri pening í sósurannsóknir og önnur tilfallandi verktakaverkefni fyrir hið opinbera verður tekin til umfjöllunar.
Týr er einn föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.