Hrafnarnir hafa fylgst með framgöngu Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, að undanförnu með athygli. Sem kunnugt er fór Ragnar í fýlu eftir að samningar tókust á milli SA og VR og neitaði hann að láta taka mynd af sér með samningamönnum hinnar fyrrnefndu. Ástæðuna sagði hann vera að honum hafi blöskrað framganga þeirra í viðræðunum. Hrafnarnir hafa tekið eftir því að enginn hefur spurt Ragnar hvað það nákvæmlega hafi verið sem gekk svo fram af honum. Voru það gífuryrði og hurðaskellir í Karphúsinu?
Af fréttum af dæma virðist Ragnar hafa lagt mikla áherslu á að samningurinn myndi losna ef vísitala neysluverðs myndi hækka um meira en 6,75% á samningstímanum. Hröfnunum þykir þetta undarleg krafa í ljósi hversu framhlaðnir samningarnir eru og þetta hefði þýtt að engri óvissu hefði verið eytt. Í stað þess að ná þessu fram féllst Ragnar loksins á ákvæði um að nefnd myndi fjalla um málið ef verðbólga færi frekar úr böndunum. Hrafnarnir hugsa í þessu samhengi til leikrits Arthurs Miller og velta fyrir sér hvort það hafi verið samningamaður frekar en sölumaður sem deyr í þetta sinn.
Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 15. desember 2022.