Til fjölda ára hefur verið unnið að hugmyndum á alþjóðavísu um lágmarksskatt á fjölþjóðleg stórfyrirtæki. Til að koma slíku á þarf flókið kerfi lagasetningar í fjölmörgum löndum. Eðli málsins samkvæmt er það gríðar flókið verkefni að koma slíku á og eflaust eiga eftir að koma í ljós vankantar þegar á reynir.
Siðan 2018 hefur hið opinbera hér á landi notað samráðsgátt þar sem hægt er að skoða væntanlega reglusetningu og gera við hana athugasemdir. Ef vel er að verki staðið gefst færi á því að fá gagnlegar ábendingar frá þeim sem vel þekkja til. Vonandi næst þá betri sátt um þær breytingar sem verið er að gera hverju sinni og gæði þeirra aukast.
Á samráðsgáttinni kemur fram að tilgangurinn sé að auka gagnsæi og möguleika hagsmunaaðila og almennings til að taka þátt í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku. Það eru augljósir kostir við það svo lengi sem mál eru skýrt sett fram, umsagnaraðilar fá næg tækifæri til þess að koma með gagnlegar ábendingar og hið opinbera vinnur vel úr þeim.
Þetta getur hins vegar verið snúið þegar um flókin og umfangsmikil mál eru að ræða. Þegar það á við reynir á og geta verið miklir hagsmunir í því fólgnir að leggja slík mál skýrt upp, kalla mögulega eftir athugasemdum varðandi einstaka þætti, vinna málið í fleiri en einni umferð o.s.frv.
Lágmarksskattur á fjölþjóðleg stórfyrirtæki
Breytingar á regluverki varðandi skatta rata inn á samráðsgáttina eins og annað. Þar á meðal hugmyndin um lágmarksskatt á fjölþjóðleg stórfyrirtæki – flókið og tæknilegt regluverk sem á rætur sínar að rekja til OECD og Evrópusambandsins. Það hefur verið á dagskrá stjórnvalda í nokkurn tíma að innleiða það hér á landi. Samkvæmt frétt á vef stjórnarráðsins er málið talið til mikilvægra mála sem stefnt er á að klárist í vor.
Það er of langt mál að rekja efni máls hér, en í hnotskurn er reglunum er ætlað að tryggja að fjölþjóðleg stórfyrirtæki greiði að lágmarki 15% skatt í a.m.k. einhverju ríki sem það starfar. Eðli málsins samkvæmt er þetta sérlega tæknilegt og flókið mál sem varðar milliríkjaviðskipti í umfangsmiklum rekstri erlendra aðila. Þá þarf að vanda sig.
Í febrúar var því gefinn tveggja vikna frestur til þess að gera umsagnir og skila á samráðsgáttina. Ein slík skilaði sér þar sem bent er á hátt flækjustig, kostnað, tæknileg vandamál varðandi innleiðingu og túlkun, o.fl.
Hvað er um að ræða?
Stjórnvöld boða það að innleiða Evrópusambands tilskipun nr. 2022/2523. Ef henni er flétt upp þá kemur í ljós að með formála er um að ræða skjal sem er 58 blaðsíður af nýju regluverki. Ef farið er í lagasafnið á vef Alþingis, lög um tekjuskatt slegin upp og þau fengin í tveimur dálkum til útprentunar þá eru lögin í heild 53. blaðsíður.
Það er auðvitað mismunandi uppsetning á þessum tveimur skjölum en umfangið á boðuðum nýjum reglum er óhemju mikið. Auk þess eru tæknilega og efnislega flóknar. Eflaust er margt áhugavert í regluverkinu og mikil vinna þar að baki. Einhver gæti þó efast um að hún hafi verið hugsuð út frá íslenskum hagsmunum eða aðlöguð íslensku lagaumhverfi. Jafnvel mætti ganga svo langt að velta því upp hvort það á sér í raun stað eitthvað samráð í tilvikum sem þessum.
Nú er ekki hægt að gera ráð fyrir því að íslenski löggjafinn finni upp hjólið í máli sem þessu og í sjálfu sér eðlileg nálgun að nýta erlenda vinnu. En það er Alþingis að ákveða hvort það sé gert.
Raunverulegt samráð hefur varla átt sér stað. Þá má spyrja sig að því hve margir þingmenn hafi í raun möguleika á að setja sig inn í efni sem þetta – mögulega mjög fáir ef nokkrir. Þrátt fyrir það kann það að gerast undir lok vorþings að samþykktar verði um 50 blaðsíður af nýrri skattalöggjöf.
Höfundur er lögmaður og einn eigenda Logos.