Hrafnarnir fylgjast spenntir með fréttum af sameiningarviðræðum Kjarnans og Stundarinnar. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, hefur staðfest að slíkar viðræður fari fram. Vafalaust verður flókið verkefni að sameina jafn ólíka fjölmiðla sem endurspegla svo ólíka sýn á íslensk stjórnmál og íslenskt samfélag. Hrafnarnir eru sannfærðir um að sameiningin gangi eftir og eina óvissan sem um hann ríkir er hversu margir tugir blaðsíðna fari undir samrunatilkynninguna.
Þá verður spennandi að sjá hvort samrunatilkynningin verði svo lengri en ákvörðun Samkeppniseftirlitið um að heimila samrunann. Hrafnarnir lýsa þó vonbrigðum sínum með að forráðamenn Kjarnans og Stundarinnar fari ekki að fordæmi framkvæmdastjóra sjónvarpsstöðvarinnar N4 og óski eftir að ákveðnir rekstrarþættir færist úr rekstri RÚV til hins sameinaða félags. Nærtækast er að horfa til fréttaskýringaþáttarins Kveiks í þeim efnum að ógleymdu Jóladagatali RÚV og Krakkaskaupinu.
Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 22. desember 2022.