Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti um 50 punkta í fyrradag, sem þýðir að þeir eru nú 9,25% og hafa ekki verið hærri síðan árið 2010, þegar bankakreppan stóð enn yfir. Hækkun stýrivaxta var í samræmi við væntingar markaðsaðila, sem höfðu flestir búist við 25 til 50 punkta hækkun.

Glíman við verðbólguna hefur verið erfið en þó verður að teljast jákvætt að á fimm mánaða tímabili hjaðnaði hún töluvert. Hún mældist 10,2% í febrúar en 7,6% í júlí. Rök peningastefnunefndar fyrir stýrivaxtahækkuninni nú eru fyrst og fremst þau að verbólguvæntingar til lengri tíma séu enn vel yfir markmiði.

Baráttan við verðbólguna hér heima og þróun stýrivaxta undanfarin misseri verið mikil rússíbanareið. Í byrjun árs 2020 stóðu stýrivextir í 3%. Í kreppunni sem fylgdi heimsfaraldrinum hófst mikið vaxtalækkunarferli og á ellefu mánuðum voru vextirnir lækkaðir í niður í 0,75%, sem eru lægstu stýrivextir Íslandssögunnar. Þá hófst hækkunarferli, sem staðið hefur í ríflega tvö og hálft ár.

Miðað við orð seðlabankastjóra í vikunni er þessari hækkunarhrinu ekki endilega lokið. Benti hann á hið augljósa að ná þyrfti verðbólgunni enn frekar niður, ekki síst vegna þess að framundan væru kjaraviðræður en þær eru honum eðlilega ofarlega huga. Vegna efnahagsástandsins voru gerðir skammtímasamningar á bæði almenna og opinbera vinnumarkaðnum síðasta vetur. Samningar sem renna út um og eftir næstu áramót.

Seðlabankastjóri sendi skýr skilaboð til aðila vinnumarkaðarins og sagði slæmt ef samið yrði um launahækkanir umfram framleiðni og verðbólgumarkmið líkt og gert hefði verið síðasta vetur. Hann sendi einnig skýr skilaboð til verslunareigenda og hins opinbera. Sagði hann að í ljósi styrkingar krónunnar og lægri verðbólgu í viðskiptalöndunum vildi hann sjá vöruverð lægra hér á landi. Þá sagðist hann vilja að hið opinbera héldi aftur af sér í hækkun þjónustugjalda og útgjalda.

Þó stýrivaxtahækkunin í vikunni hafi ekki komið markaðsaðilum á óvart þá kom nú verkalýðshreyfingunni í opna skjöldu. Hefur Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og fyrsti varaforseti ASÍ, verið þar broddi fylkingar. Segir hann ljóst að hækkunin sé tilkomin vegna þrýstings úr fjármálakerfinu. „Þar er öskrað á hærri vexti, að raunvaxtastig verði jákvætt. Þannig að hagnaður bankanna aukist enn frekar. Sá þrýstingur virðist vera að skila sér vel inn í Seðlabankann," sagði Ragnar í viðtali í vikunni.

Allt skynsamt fólk veit að þessi samsæriskenning á ekki við nein rök að styðjast. Ragnar Þór er að beina athyglinni frá kjarasamningum síðasta vetrar og olíunni sem hann sjálfur henti á verðbólgubálið þá. Í raun mætti alveg eins segja að verið sé að hækka stýrivexti svo sömu mistök verði ekki gerð aftur — verið sé að kæla hagkerfið áður er kjarasamningslotan hefst í vetur.

Seðlabankastjóri, sem hefur sýnt að hann getur verið hvassyrtur, var hófstilltur í vikunni. „Við vonumst bara eftir því að við fáum aðila vinnumarkaðarins í lið með okkur með jákvæðum hætti þannig að við séum öll að vinna að sama markmiði, toga í sömu átt þannig að við getum séð lága verðbólgu og lága vexti til lengri tíma.“

Óhætt er að taka undir með seðlabankastjóra varðandi þetta allt saman. Glíman við verðbólguna er ekki einkamál stjórnvalda eða Seðlabankans. Aðilar vinnumarkaðarins, atvinnurekendur og launþegasamtök, bera líka ábyrgð. Á það sérstaklega við þegar kjarasamningar losna.

Það er því afar mikilvægt að þessir aðilar muni að þegar samið hefur verið um hækkun launa umfram innistæðu í hagkerfinu hefur kaupmáttur vissulega aukist en einungis í skamman tíma og þá hefur farið að síga á ógæfuhliðina. Viðskiptahallinn aukist, krónan veikst og verðbólgan étið upp kaupmáttaraukninguna. Þá má einnig benda á að vaxtahækkanir bitna ekki bara á launþegum heldur einnig á fyrirtækjum því þetta eru jú sömu vextirnir.

Forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar hafa bent á að Seðlabankinn sé með stýrivaxtahækkunum sínum að reka fólk í verðtryggð lán. Þetta er að vissu leyti rétt en þessi þróun er jafnmikið eitur í beinum seðlabankastjóra og forkólfa verkalýðshreyfingarinnar. Ástæðan er sú að þegar obbi landsmanna er kominn með verðtryggð lán þá bítur stýrivaxtastjórntæki Seðlabankans lítið sem ekkert.