Ef það er eitthvað eitt sem einkennir hópinn sem fæddur er um og uppúr 1990 og mælist í kringum 18% atvinnulaus, þá eru það stanslaus SAMSKIPTI. Þetta eru krakkarnir sem hafa verið í stöðugum samskiptum hverjir við aðra frá því þeir muna eftir sér — leikskóli frá 6 mánaða, saman alla daga, farsími, símtöl og endalaus sms, tölva, margar tegundir samskiptaforrita og samfélagsmiðla, tölvuleikir, sýndarsamskipti og stöðug endurgjöf, Youtube, download, sjónvarpsdagskrá að eigin vali og eitthvað er enn eftir af samskiptum augliti til auglitis. Held að það sé alveg sama hvað okkur finnst um þetta, veruleiki þessa hóps er á þennan veg.
Eru fyrirtækin tilbúin?
Þegar þau síðan koma út á vinnumarkaðinn þá er vinnan oft einhæf, veldur vonbrigðum, þau jafnvel einangrast á vinnustaðnum, það er lokað á Fésbók, fá ekki að nota farsímann og Internetið — þurfa jafnvel að biðja um leyfi til að hringja úr borðsímanum. Þannig eru samskipti þeirra við félagana og þeirra eigin veröld skyndilega takmörkuð og þeim líður sennilega eins og slökkt hafi verið á þeim — þau eru allt í einu EKKI TIL!
Stjórnunin, vinnuumhverfið og skipulagið
Velflestir stjórnendur í dag eru af hinni svokölluðu „Uppgangskynslóð“ (1955– 1975 ca.), sem ólst upp við einn síma á heimilinu, eina sjónvarpsstöð og ekkert Internet. Held það gefi augaleið að samskiptakynslóðinni verður ekki stýrt til árangurs með sama hætti og kynslóðunum á undan, jafnvel ekki einu sinni þeim sem fæddir eru aðeins 10 árum áður. Stjórnendur hvar sem er í fyrirtækjaumhverfinu standa því frammi fyrir þeirri erfiðu áskorun að finna leiðir til að virkja þennan hóp, laða fram kraftinn, einbeitinguna og vinnugleðina á forsendum þessa unga fólks, þannig að þau finni tilganginn með vinnunni eða þeim