Hrafnarnir sáu að Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, og Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélagsins, tóku sig saman og skrifuðu grein á Vísi í vikunni.
Greinin er ákall til stjórnmálamanna í aðdraganda alþingiskosninga um að beita sér fyrir auknum launaójöfnuði á vinnumarkaði og segjast þær stöllur geta beitt þrjátíu þúsund atkvæðum þeirra sem eiga aðild að verkalýðsfélögunum sem þær leiða.
Hrafnarnir sjá ekki af greininni að þær séu að kvarta yfir kjörum félagsmanna sinna enda hafa læknar, verkfræðingar og aðrir sérfræðingar það almennt séð ágætt. Nei, þær eru að kvarta yfir því að þeir sem hafa lægstu launin hafi það of gott enda segir í greininni: „Launamunur háskólamenntaðra og ófaglærðra er einn sá minnsti í Evrópu. Við það geta háskólamenntaðar stéttir ekki unað öllu lengur.“ Hrafnarnir munu fylgjast spenntir með hvaða stjórnmálahreyfingar munu hlýða kalli verkalýðsforingjanna.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 30. október 2024.