Þegar ég hóf störf í íslenskri ferðaþjónustu fyrir alvöru, árið 1992, var ferðaþjónusta á Íslandi agnarlítil atvinnugrein. Að sögn gárunganna lítið annað en „hobby“ fyrir kennara og handverkskonur í sveitum landsins. Þeir sem störfuðu við greinina voru nánast eins og stórfjölskylda, þar sem allir þekktu alla. Það ár komu 142.457 ferðamenn til landsins. Árið 1998 var staðan nokkuð svipuð. Greinin hafði þó vaxið hægt og rólega og fjöldi ferðamanna var kominn í rúmlega 232.000. Starfsmenn í greininni voru tæplega 5.000.

Þegar ég hóf störf í íslenskri ferðaþjónustu fyrir alvöru, árið 1992, var ferðaþjónusta á Íslandi agnarlítil atvinnugrein. Að sögn gárunganna lítið annað en „hobby“ fyrir kennara og handverkskonur í sveitum landsins. Þeir sem störfuðu við greinina voru nánast eins og stórfjölskylda, þar sem allir þekktu alla. Það ár komu 142.457 ferðamenn til landsins. Árið 1998 var staðan nokkuð svipuð. Greinin hafði þó vaxið hægt og rólega og fjöldi ferðamanna var kominn í rúmlega 232.000. Starfsmenn í greininni voru tæplega 5.000.

Kraftur frumkvöðlanna leystur úr læðingi

Enn voru samkomur innan ferðaþjónustunnar eins og ættarmót. Ég man eftir flugferð innanlands á þessum árum, þar sem hávaxinn frumkvöðull í greininni og stjórnarmaður í fyrstu stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar, stóð fremst í vélinni, horfði yfir mannskapinn og sagði: „Það er eins gott að það komi ekkert fyrir þessa vél, þá fer öll ferðaþjónustan á einu bretti.“

Árið 1998 markaði þó stórmerkileg tímamót í sögu íslenskrar ferðaþjónustu. Þann 11. nóvember voru Samtök ferðaþjónustunnar stofnuð með pompi og prakt á Hótel Sögu í Reykjavík. Þau voru stofnuð á grunni Sambands veitinga- og gistihúsa, sem breytti nafni sínu í Samtök ferðaþjónustunnar og opnaði félagið fyrir öllum fyrirtækjum sem störfuðu á sviði ferðaþjónustu. Ég man vel eftir þessum fallega vetrardegi, andrúmsloftinu, eftirvæntingunni og gleðinni sem ríkti á stofnfundinum. Undir niðri kraumaði ómældur kraftur og eldmóður frumkvöðlanna í íslenskri ferðaþjónustu sem beið þess eins að leysast úr læðingi. Sem hann svo sannarlega gerði!

Að tala einni röddu

Kveikjan að stofnun heildarsamtaka ferðaþjónustufyrirtækja var stefnumótun í ferðaþjónustu sem Halldór Blöndal, þáverandi samgönguráðherra, stóð fyrir á árunum 1995-1996. Sú stefnumótun var í raun stöðumat á málefnum greinarinnar og ýtti ýmsum málum áfram sem aldrei hafði verið hugað skipulega að.

Umræðan hafði þó kraumað í kreðsum greinarinnar miklu lengur. Samkvæmt viðtali við hópinn sem undirbjó stofnun samtakanna og birtist í Morgunblaðinu þann 8. nóvember 1998 vantaði sárlega sterkan þrýstihóp og sameiginlegan málsvara ferðaþjónustunnar til þess að tryggja það að greinin talaði einni rödd.

Ýmis sérsamtök voru vissulega starfandi, svo sem fyrrnefnt Samband veitinga- og gistihúsa, Samband bílaleiga, Félag íslenskra ferðaskrifstofa og fleiri. Það var mál manna að þessi sérsamtök sendu frá sér misvísandi skilaboð, sem auðvitað var afleitt fyrir uppbyggingu og hagsmunagæslu greinarinnar. Steinn Logi Björnsson, fyrsti formaður SAF orðaði það svona: „Það hefur verið vaðið yfir ferðaþjónustuna og hagsmuni hennar sem atvinnugreinar, vegna þess að við höfum ekki verið skipulögð og ekki átt okkur forsvarsmenn. Ekki hefur verið tekið tillit til þarfa ferðaþjónustunnar og óska sem einnar stærstu atvinnugreinar landsins og við höfum ekki fengið að koma að stórum ákvörðunum stjórnvalda varðandi virkjunarmál, umhverfismál, skattamál og fleira.“

Margsinnis sannað gildi sitt

Það má segja að greinin í heild hafi þannig verið gjörsamlega áhrifalaus varðandi stefnumörkun, fjárveitingar, lagasetningar og ýmis hagsmunamál. Helgi Jóhannsson, sem tók sæti í fyrstu stjórn SAF sagði annað og ekki síður mikilvægt að samtökin væru einnig stofnuð til að koma á aukinni samkennd og innbyrðis virðingu innan greinarinnar. Að vera í Samtökum ferðaþjónustunnar yrði þar að auki ákveðinn gæðastimpill á viðkomandi fyrirtæki, sem væru í atvinnugreininni af alvöru.

Því miður er það ennþá svo að ferðaþjónustan hefur ekki áunnið sér þann sess í hugum stjórnvalda sem hefðbundnari atvinnugreinar hafa.

Það má með sanni segja að þeir félagar og fleiri sem stóðu að stofnun samtakanna hafi verið framsýnir, hitt naglann lóðbeint á höfuðið og áttað sig á hinu gríðarlega mikilvægi þess að ferðaþjónustan sé sameinuð undir einum hatti. Það hefur sannað sig margoft á þessum aldarfjórðungi sem samtökin hafa starfað og ýmislegt sem hefði getað farið mjög illa bæði fyrir greinina og samfélagið, hefðu samtökin ekki verið til staðar. Þau hafa á þessari vegferð styrkst og eflst, slípast til í takt við tíðarandann og málefni hvers tíma. Þau hafa innan sinna raða flest öflugustu fyrirtækin í ferðaþjónustu á Íslandi, tugi sjálfboðaliða sem leggja starfseminni óeigingjarnt lið í formi stjórnarstarfa, fagnefndastarfa og annarra trúnaðarstarfa og ekki síst reynslumikið starfsfólk, sem brennur ekki síður fyrir málefnum greinarinnar.

Baráttan heldur áfram

Sé litið til þeirra stefnumála sem SAF lögðu áherslu á í upphafi má sjá að ýmislegt hefur áunnist en önnur mál eru í dag enn jafn áríðandi og þau voru árið 1998 og í raun lítið þokast áfram. Starfsemi hagsmunasamtaka ferðaþjónustunnar er í dag ekki síður mikilvæg og ef eitthvað enn mikilvægari en fyrir 25 árum. Umfang og vægi ferðaþjónustu hefur auðvitað gjörbreyst á allan hátt. Hún er orðin stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar og hefur víðtæk áhrif á efnahag, umhverfi og samfélag. Það eru gerðar ríkari kröfur til hennar nú og hún gerir enn ríkari kröfur um pláss við borðið, þegar kemur að ákvarðanatöku og stefnumótun í þeim málaflokkum, sem hana snerta.

Því miður er það ennþá svo að ferðaþjónustan hefur ekki áunnið sér þann sess í hugum stjórnvalda sem hefðbundnari atvinnugreinar hafa. Þekkingunni á atvinnugreininni, því hvernig hún virkar og hvað hún þarf og hvað alls ekki til að geta haldið áfram að dafna, er enn mjög ábótavant.

Gæðastimpill að vera í SAF

Það er því ennþá stanslaust verk að vinna, bæði í viðvarandi málum, svo sem umhverfismálum, gæðamálum, menntunar- og fræðslumálum og loftslagsmálum - sem og málefnum og hagsmunum líðandi stundar, sem samtökin þurfa bæði að eiga frumkvæðið um að ræða og að bregðast við. Þau mál eiga það til að leggja undir sig allt starf samtakanna yfir ákveðið tímabil og er þar skemmst að minnast umræðunnar um virðisaukaskattinn árið 2017 og heimsfaraldur kórónuveiru, sem heltók starfsemi SAF um tveggja ára skeið.

Erindi samtakanna í dag er því algjörlega kýrskýrt og mikilvægt að efla þau enn frekar með þátttöku enn fleiri fyrirtækja í greininni. Það er gæðastimpill að vera félagi í SAF og það er samfélagslega ábyrgt að taka þátt og styðja við ábyrga þróun og hagsmunagæslu atvinnugreinarinnar sem maður hefur valið að starfa í. Því fleiri sjónarmið sem heyrast innan samtakanna og því fleiri sem leggja lið, því árangursríkara verður starfið. Eitt er þó alveg klárt að það efast enginn lengur um það hvert á að leita, þegar óskað er eftir skoðunum, áliti eða sjónarmiðum frá íslenskri ferðaþjónustu!

Þeim framsýnu einstaklingum, fyrirtækjum og samtökum sem höfðu frumkvæði að og stóðu að stofnun Samtaka ferðaþjónustunnar árið 1998 færi ég hér með bestu þakkir fyrir hönd atvinnugreinarinnar. Þetta var svo sannarlega heillaskref.

Framtíðin er björt

Framtíðin er björt. Ferðaþjónustan hefur á þessum aldarfjórðungi sem liðin er frá stofnun þeirra þróast úr því að vera lítill strandveiðibátur upp í frystitogara. Það eru þó ýmis ljón á veginum og mörg aðkallandi og sum umdeild mál sem þarf að vinna að og leysa. Í baráttunni við ljónin og við lausn þessara mála ætla SAF að gegna lykilhlutverki og ávallt með heildarhagsmuni atvinnugreinarinnar að leiðarljósi.

Að lokum óska ég Samtökum ferðaþjónustunnar til hamingju með árangursríka starfsemi síðastliðinn aldarfjórðung, velfarnaðar og enn meiri árangurs á þeim næsta!

Greinin birtist í afmælisblaði Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka í 25 ár.