Hrafnarnir urðu hissa þegar ábending Alexöndru Briem, borgarfulltrúa Pírata, um að stýrihópur um endurskoðun á þjónustuhandbók vetrarþjónustu hjá Reykjavíkur væri að störfum dugði ekki til að draga úr reiði borgarbúa vegna skorts snjómoksturs á götum og göngustígum bæjarins. Kannski ætti borgarmeirihlutinn að fara að fordæmi Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra sem skipaði spretthóp vegna alvarlegrar stöðu matvælaframleiðslu á Íslandi. Steingrímur J. Sigfússon leiddi starf spretthópsins og nú er Suðurlandsundirlendið á góðri leið að verða að brauðkörfu og Íslendingar sjálfbærir um kornræktun ef marka má nýja skýrslu embættismanna ráðuneytisins.
Hrafnarnir vita að Vinstri græn hafa ráð undir rifi hverju og vekja athygli á frumlegri lausn Lífar Magneudóttir borgarfulltrúa. Í Fréttablaðinu í vikunni lagði hún til að skóflur yrðu tjóðraðar við ljósastaura borgarinnar þannig að íbúar gætu hlaupið til og mokað sig úr vandanum með samtakamætti. Hrafnarnir hafa heyrt að þetta fyrirkomulag hafi gefist sérstaklega vel í Pjongjang um áratugaskeið.
Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 22. desember 2022.