Það kom fljótt í ljós, sem Óðinn benti á í síðustu viku, hversu miklir sundrungamenn Guðlaugur Þór Þórðarsonar og skósveinar hans eru.
Alvarlegasta svindlið, til þessa, átti sér stað að félagsfundi í Heimdalli á föstudag. Þar var mörgum tugum félagsmanna ekki hleypt inn á fundinn.
Það er verkefni stjórnar félags og starfsmanna fundarins, þá helst fundarstjórans, að gæta að því að öllum reglum sé fylgt.
Júlíus Viggó Ólafsson er formaður félagsins og harmaði hann það mjög að einhverjir félagsmanna gátu ekki tekið þátt í fundinum.
En sökin er hans. Hvers vegna lá svo á að klára ríflega hundrað manna fund á 11 mínútum? Hvaða skaði hefði orðið af því að bíða í korter eftir því að skrá inn fundarmenn, sem sannarlega voru mættir áður en fundurinn hófst ?
Skýring mannsins, sem að eigin sögn „trúir á Guðrúnu Hafsteinsdóttur“, um að þremur klukkustundum síðar ætti annar fundur að hefjast í sama rými er haldlaus.

Og auðvitað er óþægilegt fyrir Guðrúnu Hafsteinsdóttur og ódrengilegt af Júlíusi gagnvart henni. Óðinn hefur nefnilega ekki trú á öðru en Guðrún vilji heyja heiðarlega kosningabaráttu.
Hér á eftir er hluti af pistli Óðins sem birtist í síðustu viku.
Sáttamaðurinn Guðlaugur Þór
Guðlaugur Þór Þórðarson tilkynnti í Kastljósi Ríkisútvarpsins að hann ætlaði ekki bjóða sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins í síðustu viku. Þar sagði hann:
Það er mín niðurstaða að það sé best fyrir okkur núna að við sem höfum verið að taka þátt í ákveðnum núningi lengi – það hefur sett mark sitt á flokkinn – að við höldum okkur til hlés. Ég ætla þess vegna að sýna það í verki, þó svo mig virkilega langi að taka þátt í þessari baráttu og treysti mér vel í það, að þá ætla ég ekki að bjóða mig fram sem formaður Sjálfstæðisflokksins á þessum landsfundi.
Óðinn hefur velt því fyrir sér undanfarið hvort Guðlaugur Þór viti hvenær hann segir ósatt og hvenær hann segir satt.
Guðlaugur Þór hefur verið upphafsmaður af öllum þeim átökum sem hafa verið í Sjálfstæðisflokknum síðustu 20 árin. Hann hefur látið þannig, að hann hafi gríðarlegt fylgi að baki sér.
Áður hefur verið rifjað upp á þessum síðum þegar Guðlaugur Þór eyddi tæpum 100 milljónum króna, að núvirði, í prófkjöri árið 2006 gegn Birni Bjarnasyni. Óðni er kunnugt um að verið sé að taka saman allar staðreyndir um það prófkjör.
Fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík árið 2021 hafði hann svo miklar áhyggjur af því að hann myndi tapa fyrir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur að hann fór þess á leit við „smala“ úr öðrum flokkum að þeir myndu koma sér til bjargar.
Fylgisleysi Guðlaugs Þórs kom í ljós á síðasta landsfundi. Bjarni Benediktsson var grunlaus um mótframboðið og landsfundarvalið var Guðlaugi Þór hagfellt. Samt tapaði Guðlaugur Þór.
***
Framboð Guðrúnar Hafsteinsdóttur
Óðinn er á margan hátt hrifinn af Guðrúnu Hafsteinsdóttur sem stjórnmálamanni. Þó hana skorti vissulega enn reynslu í stjórnmálum, sem meðal annars hefur sést í viðbrögðum hennar í fjölmiðlum.
Óðinn hefur samt fulla trú á því að hún verði einn daginn í forystusveit Sjálfstæðisflokksins.
Helsti hvatamaðurinn að formannsframboði Guðrúnar Hafsteinsdóttur er Guðlaugur Þór Þórðarson. Sá er auðvitað ekki að hugsa um Guðrúnu okkar, heldur sjálfan sig.
Hann vissi að hann ætti ekki möguleika á að vinna formannskjör á landsfundi og því fór hann í það að reyna að skapa átök innan flokksins. Guðrún blessunin varð því miður fórnarlamb þessa.

Guðlaugur Þór er auðvitað einn af okkar snjöllustu og gáfuðustu mönnum. Hann lét því ekki sjá sig á kosningafundinum hjá Guðrúnu um síðustu helgi því hann vissi að sjónvarpsvélarnar yrðu á svæðinu.
En hann gleymdi víst að láta Ágústu vita. Að ef til vill væri hún full tengd honum til að mæta. Og hún mætti.
***
Bitlingamenn Guðlaugs Þórs
Sáttamaðurinn Guðlaugur Þór telur nú að hann sé eina von Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu borgarstjórnarkosningar.
Hann hefur ekki sagt það sjálfur heldur segja það allir sem hafa þegið bitlinga frá honum, á kostnað skattgreiðenda, á undanförnum árum.
Núna reyna bitlingamennirnir allir sem einn að grafa undan Hildi Björnsdóttur oddvita.
Það er nefnilega svo að sáttamaðurinn Guðlaugur Þór er einn helsti sundrungarmaðurinn sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur séð.
Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn 12. febrúar. Áskrifendur geta lesið pistilinn í fullri lengd hér.