Hrafnarnir vita að það er ekki tekið út með sældinni að vera fjármagnseigandi á Íslandi þessa dagana.

Hrafnarnir vita að það er ekki tekið út með sældinni að vera fjármagnseigandi á Íslandi þessa dagana.

Þannig fengu hrafnarnir tilkynningu um það á dögunum að vextir hefðu verið lækkaðir á óverðtryggða reikningnum sem þeir eiga. Nam lækkunin 0,10 prósentustigum. Það kemur kannski mörgum á óvart að þessi vaxtalækkun er í boði Ásgeirs Jónssonar og alls þess fjölda sem gegnir starfi seðlabankastjóra með honum.

Það er að segja bankarnir eru að lækka vextina til að bregðast við þeim kostnaði sem Seðlabankinn olli þeim þegar hann ákvað að hækka bindiskylduna á fjármálafyrirtæki fyrr á árinu.

Í tilkynningu frá Auði, sem er stýrt af Ármanni Þorvaldssyni og hans fólki í Kviku, er málið útskýrt ágætlega fyrir viðskiptavinum.

Þar segir: „Nýlega ákvað Seðlabankinn að hækka bindiskyldu á fjármálafyrirtæki umtalsvert. Í einföldu máli þýðir það að fjármálafyrirtæki þurfa að halda hærri fjárhæð á reikningi í Seðlabankanum sem ber 0% vexti. Áhrifin af þessari hærri bindiskyldu eru þau að Auður getur ávaxtað minna af innstæðum sínum en áður og getur þar af leiðandi greitt minni vexti til viðskiptavina.“

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill fyrst í blaðinu sem kom út 3. júlí 2024. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.