Seðlabankinn birti í október sérrit um lífeyrissjóði og æskilegar umbætur á löggjöf um lífeyrissjóði að mati bankans. Ritið, sem er 50 blaðsíður, er efnismikið en til viðbótar við vangaveltur er að finna ágæta samantekt um einkenni og áskoranir fyrir lífeyrissjóði á næstu árum.

Það vekur óneitanlega athygli að bankinn skuli ráðast í þessa útgáfu á sama tíma og vinna við grænbók um lífeyriskerfið er yfirstandandi. Grænbókin er unnin að frumkvæði stjórnvalda með það að markmiði að skapa grundvöll fyrir umræðu, stefnumörkun og ákvarðanir um lífeyriskerfið og framtíðarþróun þess með heildstæðum hætti. Fram hefur komið að Seðlabankanum var boðið að senda inn ábendingar og hugmyndir til starfshóps sem leiðir grænbókarvinnuna.

Orðspor Seðlabankans gagnvart lífeyrissjóðum er nokkuð laskað eftir að bankinn lagðist gegn vel undirbúnum mótvægisaðgerðum sjóða sem vega meira en helming af lífeyriskerfinu við innleiðingu á nýjum líftöflum árið 2022. Við mótun þeirra var sérstaklega hugað að sanngirni og meðalhófi og hefur Hæstiréttur staðfest lögmæti þeirra. Útgáfa sérritsins er e.t.v. hugsuð að einhverju leyti til að útskýra sjónarmið bankans frá þeim tíma.

Sérritinu er ætlað að hvetja til umræðu og vera jákvætt innlegg í mögulega endurskoðun á lagaumhverfi lífeyrissjóða. Í því eru fjölmargar ábendingar, sumar afdrifaríkar en aðrar minniháttar. Hér verða nokkrar nefndar (ábending SÍ feitletraðar, umsögn höfundar fyrir aftan).

Góðar ábendingar

Þörf er á að skýra regluverk um tilgreinda séreign sem eykur flækjustig. Innleiðing tilgreindrar séreignar með lagabreytingu var óþörf á sínum tíma og jók flækjustig. Færa má rök fyrir því að sparnaðurinn nýtist fólki ekki vel vegna þrengri útborgunarheimilda tilgreindrar séreignar en gilda fyrir hefðbundinn séreignarsparnað.

Tillaga um afnám eða slökun á magntak­mörkunum á fjárfestingarheimildum. Magntakmarkanir hafa gert gagn í fortíð en þörfin á þeim hefur minnkað samhliða því að sjóðir hafa skilgreint viðmið og skilyrði í fjárfestingarstefnum. Slökun á magntakmörkunum er tímabær og til þess fallin að auka áhættudreifingu í kerfinu með því að draga úr einsleitni eigna.

Yfirfara lagaákvæði um skilyrði við mat á því hvenær lífeyrissjóðir teljast standa við skuldbindingar og breytingar á réttindum. Núverandi ákvæði voru samin þegar réttindi sjóðfélaga fyrir greitt iðgjald voru veitt óháð aldri. Þetta hefur breyst og eðlilegt að yfirfara lagaákvæði.

Auka upplýsingagjöf til sjóðfélaga um réttindi í samtryggingardeildum. Ábending um að upplýsingagjöf verði aukin og bætt við sviðsmyndum, m.a. um óhagstæða ávöxtun, er til bóta fyrir sjóðfélaga.

Aðrar ábendingar

Fram fari umræða um aðkomu lífeyrissjóða að húsnæðislánamarkaði. Lífeyrissjóðir hafa fjármagnað beint og óbeint fasteignalán að mestu á Íslandi á liðnum árum og áratugum. Sjálfsagt er taka umræðu um aðkomu þeirra en sjóðirnir leggja áherslu á að þeir geti áfram lánað beint til sjóðfélaga til að halda kostnaði í lágmarki og tryggja samkeppni á markaði.

Séreignarsparnaður falli undir sérlöggjöf. Séreignarsparnaður varð til innan lífeyriskerfisins og er órjúfanlegur hluti þess. Margir sjóðir bjóða sjóðfélögum sínum að greiða hluta af lágmarksiðgjaldi og viðbótariðgjald í séreignarsjóð. Það væri óheppilegt og aukið flækjustig að vera með tvær tegundir séreignar undir mismunandi löggjöf.

Til greina kemur að formfesta viðbrögð sjóða í alvarlegum efnahagsáföllum. Hér vill Seðlabankinn geta gripið inn í eignastýringu lífeyrissjóða sem er afar  óheppilegt og gæti farið gegn hagsmunum sjóðfélaga. Reynslan sýnir einnig að samtöl hagaðila í kreppum hafa skilað árangri.

Færa verkefni tengd veitingu starfsleyfis og staðfestingu samþykkta frá fjármálaráðuneyti til Seðlabankans. Það er ekki góð stjórnsýsla að framkvæmdavald og eftirlit sé á sömu hendi. Á liðnum árum hafa komið upp nokkur tilvik þar sem það hefur reynst vel að fá úrlausn mála frá öðrum aðila en þeim sem fer með eftirlitshlutverkið. Mál fá vandaðri stjórnsýslumeðferð með núverandi fyrirkomulagi.

Veita Seðlabankanum heimild til að leggja stjórnvaldssektir á lífeyrissjóði. Hugmyndin er afleit og sektargreiðslur munu alltaf lenda á almennum sjóðfélögum. Í landinu eru í gildi lög og reglur sem fólki ber að fara eftir. Þeir sem virða ekki reglur missa oftast atvinnu sína. Ef aðilar fara vísvitandi á svig við lög eru í gildi almenn hegningarlög. Stjórnvöld eiga ekki að víkja frá þessari meginreglu og veita opinberum stofnunum of mikið vald, í þessu tilviki til að refsa með sektum.

Endurskoðun á skilyrðum og útfærslu lágmarkstryggingaverndar. Núverandi reglur veita sjóðum nokkuð svigrúm til að gefa sjóðfélögum færi á að byggja upp lífeyrissparnað sem er blanda af réttindum í samtryggingarsjóði og séreignarsparnaði. Það er mikilvægt að halda þessum sveigjanleika en skynsamlegt að yfirfara hvort hækkun á lágmarksréttindaávinnslu úr 1,4% á ári í 1,8% hafi verið nauðsynleg.

Endurskoðun á ávöxtunarviðmiði sem taki mið af evrópskum tilskipunum. Umræða um ávöxtunarviðmið er af hinu góða. Núverandi viðmið hefur reynst vel, það er raunhæft og sú leið að hafa fast viðmið eykur stöðugleika og hentar vel fyrir sjóði þar sem iðgjöld eru meiri eða svipuð og lífeyrisgreiðslur. Reynsla sumra Evrópuríkja af breytilegum viðmiðum er ekki góð.

Samsetning stjórna verði þannig að stjórnarmenn búi sameiginlega yfir hæfni, getu, færni og starfsreynslu á viðeigandi sviðum rekstrarins til að sjóðum sé stjórnað á faglegan og skilvirkan hátt. Með notkun á leiðbeiningum um stjórnarhætti hefur færst í vöxt að stjórnir séu valdar þannig að stjórnarmenn búi yfir mismunandi þekkingu. Hugmyndin er ágæt en hún á ekki að koma í veg fyrir að sjóðfélagar, sem búa yfir almennri skynsemi og standast kröfur um hæfni, geti gefið kost á sér til starfa til að líta eftir eigin sparnaði og annarra.

Gildandi lög hafa reynst vel

Lög um lífeyrissjóði frá 1997 hafa í meginatriðum virkað vel. Sjóðirnir standa vel og þjóna hlutverki sínu með fullnægjandi hætti. Á síðustu áratugum hefur meðalævi fólks lengst mikið og þar af leiðandi greiðslutími ævilangs ellilífeyris. Sjóðirnir hafa náð að aðlagast þessum breytingum og veita núna mun verðmætari réttindi en þegar núverandi lög voru sett.

Íslensk stjórnvöld eiga að flýta sér hægt við endurskoðun laga um lífeyrissjóði, það liggur einfaldlega ekkert á. Seðlabankinn vill líta til evrópsks regluverks en það er alls ekki sjálfgefið að innleiða efnisatriði þeirra. Bankinn vill einnig að svipaðar reglur gildi um lífeyrissjóði og önnur fjármálafyrirtæki. Það getur gengið upp að vissu marki en hér þarf að hafa í huga sérstöðu sjóðanna sem eru með niðurnjörvaða starfsemi samkvæmt lögum og eru 100% fjármagnaðir með eigin fé sjóðfélaga. Fjármálafyrirtæki eru hins vegar að stórum hluta fjármögnuð með lánsfé og geta breytt starfsemi sinni hvenær sem er með auknu eða minna vöruframboði. Í öllu falli er æskilegt að endurskoðun laganna styðjist við ábatagreiningu við mat á öllum breytingum og að farið verði varlega í að innleiða auknar kröfur og  skyldur eða flækjustig.

Það er ekki hlutverk Seðlabankans að vera leiðandi í þróun og mótun regluverks. Bankanum er hins vegar frjálst að koma með ábendingar og sérritið er ágætis innlegg í umræðu um lífeyrissjóðina.

Höfundur er framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.