Lífeyrissjóðirnir fengu blauta tusku í andlitið á dögunum frá Gísla Óttarssyni og Guðmundi Erni Jónssyni sem fara ásamt fjölda annarra með loftslagseftirlit Seðlabankans.

Í bréfi sem Gísli og Guðmundur sendu á stjórnendur lífeyrissjóðanna kemur fram að þeir séu á byrjunarreit þegar kemur að mati á loftslagsáhættu og þeir þurfi að byggja sér upp þekkingu í þeim efnum. Hrafnarnir velta fyrir sér hvort það sé virkilega nauðsynlegt að íslenskir lífeyrissjóðir fyllist af alls kyns loftslagsspekingum.

Stærstu fjárfestingar sjóðsins felast í kaupum í erlendum sjóðum þar sem ætla má að tekið sé tillit til reglna og skyldna hvað varðar allar fjárfestingar. Hrafnarnir eru eigi að síður lausnamiðaðir og telja að hægt sé að koma til móts við þarfir loftslagseftirlits Seðlabankans.

Þannig gætu lífeyrissjóðsstjórar byrjað á því að hengja upp loftvog upp á vegg á skrifstofum sínum og svo blasir við að leita í smiðju stýrihóps um endurskoðun vetrarþjónustu í Reykjavíkurborg þannig að fjárfestingar lífeyrissjóðanna muni hér eftir taka mið af veðri hverju sinni.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 29. janúar 2025.