Viðreisn gefur sig út fyrir að vera stjórnmálaafl fólksins sem er of frjálslynt fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Eitt helsta slagorð flokksins er: Almannahagsmunir framar sérhagsmunum.

Þegar allt kemur til alls þá er þetta slagorð orðin tóm. Hagsmunir MS eru framar hagsmunum íslenskra neytenda að mati ráðherra Viðreisnar – Mjólkursamsölunni allt!

***

Fram hefur komið í fréttum að Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra Viðreisnar, þrýsti á samflokksmann sinn, Daða Má Kristófersson fjármálaráðherra, um að láta af áformum sínum um að breyta tollflokkun pítsaosts íblönduðum jurtaolíu aftur til fyrra horfs.

Í stuttu máli snýst málið um ost sem er notaður á pítsur. Veitingamenn kjósa ekki að nota íslenskan ost þegar kemur að pítsugerð og almennri gratíneringu sem er auðvitað helsta kjölfesta íslenskrar matargerðarlistar. Eins og fram kom í umfjöllun Viðskiptablaðsins í síðustu viku kvarta þeir undan ítrekuðum gæðavandamálum íslenska ostsins á borð við myglu, stökkri áferð og litabreytingum.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Til þess að bregðast við þessu fóru þeir að flytja inn pítsaost sem stenst almennar gæðakröfur og viðmið í manneldismálum. Stjórnkerfið brást við þessu með því að breyta tollflokkaskráningu erlenda pítsaostsins þannig að hann ber nú ofurtolla. Evrópusambandið brást réttilega við þessu og setti Ísland á lista yfir ríki sem beita viðskiptahindrunum. Eftirlitsstofnun EFTA hefur málið jafnframt til skoðunar.

***

Við þessu ætlaði fjármálaráðherra að bregðast en varð að láta undan þrýstingi atvinnuvegaráðherra. Væntanlega sökum þess að almannahagsmunir krefjast þess að íslenskum neytendum sé boðið upp á vöru sem veitingamenn telja óboðlega.

Þarna er Hanna Katrín að taka sér stöðu við hlið Framsóknarmanna í baráttu sinni fyrir almannahagsmunum fram yfir sérhagsmuni. Ingibjörg Isaksen sagði um þetta mál á dögunum að ef áform fjármálaráðherra um að skrá innflutta ostinn í réttan tollflokk hefðu gengið eftir hefðu tugir kúabúa þurft að hætta starfsemi.

Týr bendir á hina augljósu staðreynd: Það er eitthvað verulega athugavert við atvinnugrein sem byggir starfsgrundvöll sinn á rangri tollflokkun í trássi við alþjóðasamninga og venjur.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 5. mars 2025.