Ferskir haustvindar blása nú um allt stjórnmálasamstarf Vinstri grænna – fámennustu fjöldahreyfingar landsins – og glæða þeir allt nýju lífi.

Ferskir haustvindar blása nú um allt stjórnmálasamstarf Vinstri grænna – fámennustu fjöldahreyfingar landsins – og glæða þeir allt nýju lífi.

Þetta sást á glæsilegum landsfundi fjöldahreyfingarinnar sem haldið var liðna helgi. Vinstri grænir vita það sem er að nýir vendir sópa best og því var algjör endurnýjun í stjórn hreyfingarinnar. Svandís Svavarsdóttir var kosin formaður og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fyrrum varaformaður, var kosinn varaformaður Vinstri grænna.

Ekki nóg með það! Hreyfingin áréttaði erindi sitt í íslenskum stjórnmálum með því að samþykkja tillögu Höllu Gunnarsdóttur og þeirra sem telja að skattfé samborgaranna sé óþrjótandi auðlind um að gengið skuli til kosninga áður en kjörtímabilið renni út.

***

Týr telur það til marks um sóknarhug Vinstri grænna að þeir sækja nú í smiðju Donalds Trump og kenna fjölmiðlum og þeim sem sjá ekki heiminn með sömu augu og þeir um öll sín vandamál.

Guðmundur Ingi, varaformaður og vinnumálaráðherra, kvartaði undan fréttaflutningi Morgunblaðsins um þær ógöngur sem grunnskólakerfið hefur ratað í og yfir vel rökstuddum tillögum Viðskiptaráðs um hverju þurfi að breyta til þess að börn þessa lands hljóti sómasamlega menntun. Svandís, formaður og innviðaráðherra, tók í sama streng á Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudag og sagði þetta hljóta vera til marks um allsherjarsamsæri hægri manna um að einkavæða grunnskólakerfið.

***

Þetta er eins og að hlusta á mótrök frá Noam Chomsky – sett fram þegar hann var fimm ára. Í því felst líka vandi Vinstri grænna. Morgunblaðið hóf í sumar að fjalla með greinargóðum hætti um þann vanda sem grunnskólakerfið á við að etja, orsakir hans og afleiðingar. Sá vandi er mikill og flestir sammála um að hann verði að leysa. Það sást ágætlega á nýafstöðnu menntaþingi svo dæmi sé tekið.

Þetta vita allir foreldrar grunnskólabarna sama hvaða flokk þeir styðja. Þeir vita einnig að hvorki Morgunblaðið né Viðskiptaráð eru rót vandans heldur sú menntamálastefna sem rekin hefur verið af stjórnvöldum. Menntamálastefna sem gagnast iðjulitlum kennurum en ekki börnum. Augljóst er að Vinstri græn taka sérhagsmuni fram yfir hagsmuni heildarinnar í þessum efnum

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 9. október 2024.