Starfstitlar eru hröfnunum hugleiknir og hið opinbera skarar fram úr á því sviði.
Nýr titill Þorbjargar Marinósdóttur er gott dæmi þess en hún var nýverið ráðin verkefnastjóri áhersluverkefna í ráðuneyti Loga Einarssonar, en var áður upplýsingafulltrúi fyrrum ráðuneytis Lilju Alfreðsdóttur sem lagt var niður. Hröfnunum er ókunnugt um hver var ráðinn verkefnastjóri gæluverkefna í ráðuneytinu.
Dæmi um aðra góða titla úr röðum ríkisfyrirtækja eru fyrirliði greininga og markaða hjá Landsneti og umhverfisgyðja Orkuveitu Reykjavíkur.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, benti í viðtali við Viðskiptablaðið að það skyti skökku við að opinberi vinnumarkaðurinn leiddi launaþróun í ljósi þess að opinberir starfsmenn njóti sérréttinda umfram starfsmenn á almennum vinnumarkaði sem felist í styttri vinnutíma, lengra orlofi, auknum veikindarétti og meiri uppsagnarvernd.
Að mati hrafnanna vantar eitt mikilvægt atriði inn í þessa upptalningu, sem eru flottari starfstitlar en tíðkast á almennum vinnumarkaði.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.