Kjaradeilur Kennarasambandsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga er komin í enn meiri hnút en áður eftir að Félagsdómur dæmdi verkfallsaðgerðir Magnúsar Þórs Jónssonar og félaga hjá Kennarasambandinu í 13 leikskólum og 7 grunnskólum víða um land ólögmætar.

Kennarasambandið neyddist því til að láta af verkföllum í fyrri mynd, að verkfalli í leikskóla í Snæfellsbæ undanskildum.

Á meðan bíða nemendur og foreldrar þeirra í von og óvon um hvort næstu skref Kennarasambandsins felist í boðun allsherjarverkfalla um land allt. Komi til þess gera hrafnarnir ekki ráð fyrir að stjórnvöld beiti sér fyrir lagasetningu gegn verkföllunum, þá sérstaklega ekki ráðherra málaflokksins Ásthildur Lóa Þórsdóttir, fyrrverandi kennari.

Hrafnarnir telja þó lítið tilefni til slíkra aðgerða enda mikill þungi í yfirstandandi verkfallsaðgerðum. Þannig taka sex kennarar úr leikskóla Snæfellsbæjar slaginn fyrir restina af kennarastéttinni.

Ef það knýr ekki sveitarfélögin til að bugta sig og beygja fyrir óljósum kröfum Kennarasambandsins vita hrafnarnir ekki hvað gæti gert það.

Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 12. febrúar.