Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra setti nýverið nýja reglugerð tengda hlutdeildarlánum þar sem hámarksverð stærstu slíkra íbúða á höfuðborgarsvæðinu var hækkað úr 66 milljónum króna í 80,5 milljónir. Að auki voru tekjumörk umsækjenda hækkuð töluvert.

Það hefur varla dulist neinum að Seðlabankinn hefur um nokkurt skeið gert sitt allra besta til að draga úr ofþenslu á íbúðamarkaði með endurteknum vaxtahækkunum og þrengingu lánþegaskilyrða, til að freista þess að ná tökum á verðbólgunni. Þessar aðgerðir virðast aftur á móti hafa farið fram hjá ráðherranum. Annað hvort það eða þá að hann hafi vísvitandi ákveðið að hrinda af stað aðgerðum, sem ekki þarf neina sérfræðikunnáttu til að átta sig á að muni stuðla að aukinni þenslu á fasteignamarkaði.

***

Taktleysi innviðaráðherrans ætti þó fyrir löngu að vera hætt að koma nokkrum á óvart. Nýlegt og eitt skýrasta dæmi um taktleysi Sigurðar Inga var þegar hann kynnti með pompi og prakt nýja samgönguáætlun til fimmtán ára þar sem boðuð voru hvorki meira né minna en 909 milljarða króna útgjöld! Þar af er reiknað með að 263 milljörðum verði varið til samgangna á fyrstu fimm árum áætlunarinnar og ekki er gert ráð fyrir nema tíu nýjum jarðgöngum.

Nokkrum dögum áður hafði ríkisstjórnin kynnt til leiks aðgerðir sínar gegn verðbólgu sem boðuðu einungis 36 milljarða sparnað í ríkisrekstrinum, en það er um þriðjungur þeirrar upphæðar sem Alþingi hækkaði útgjöld ríkissjóðs þegar það hafði fjárlög yfirstandandi árs til umfjöllunar. Sem sagt nokkrum dögum eftir að hafa, ásamt formönnum hinna ríkisstjórnarflokkanna, kynnt til leiks auman aðgerðapakka ósamstíga ríkisstjórnar gegn verðbólgu boðaði Sigurður Ingi 909 milljarða króna útgjöld.

***

Hvort sem umrætt taktleysi innviðaráðherra sé meðvitað eða ekki skal ósagt látið. Týr reynir nú yfirleitt að temja sér það að líta hlutina jákvæðum augum. En þessi skilaboð frá ráðherranum gefa því miður ekki tilefni til bjartsýni á að baráttan við verðbólguna verði skammvinn. Yfirvofandi kjaraviðræður og hótanir úr röðum herskáustu verkalýðsforingjanna auka heldur ekki á bjartsýnina.