Íslenska þjóðin fagnaði handboltahetjum sínum í gær þegar þær komu til landsins eftir frækna þátttöku í Ólympíuleikunum í Peking. Engum dylst að afrek þeirra er mikið því aldrei áður hafa fulltrúar jafn fámennrar þjóðar leikið til úrslita um gullverðlaun á leikunum. Þótt það hafi verið silfur að þessu sinni er ærin ástæða til að fagna eins og Íslendingar hafa gert með eftirminnilegum hætti undanfarna daga. Afrek liðsins er glæsilegt og landsliðsmennirnir hafa unnið sér varanlegan sess í hjörtum þjóðarinnar.
Í dag eru sterkustu vígi handboltans á Norðurlöndum, í Þýskalandi og á Spáni auk þess sem sumar Austur-Evrópuþjóðir byggja á gömlum grunni. S-Kóreumenn byggðu upp sterkt lið í aðdraganda Ólympíuleikanna í Seoul 1988 og hafa haldið því. Margir hafa efast um útbreiðslu handboltans en þar sem hann hefur verið ólympíuíþrótt hafa margar þjóðir lagt áherslu á að byggja hann upp eins og bíður nú Breta, sem halda ólympíuleikana eftir fjögur ár. Hingað til hafa þeir ekki verið hátt skrifaðir í handboltaíþróttinni. Fljótlegasta leiðin til að byggja íþróttina upp er að koma henni inn í skólakerfið en S-Kóreumenn fóru t.d. þá leið að setja upp keppni skólaliða og voru furðu fljótir að byggja upp sterkt landslið en við Íslendingar kynntumst því einmitt á HM í Sviss árið 1986 þegar við vorum teknir í kennslustund. Síðan þá höfum við átt erfitt með kóreska liðið.
Þrátt fyrir að handbolti hafi nánast verið þjóðaríþrótt Íslendinga um langt skeið, hefur fjárhagsstaða Handknattleikssambands Íslands verið erfið og hefur þurft að rétta við fjárhag sambandsins með nokkurra ára millibili. 50 milljóna króna framlag ríkisstjórnarinnar, að ósk menntamálaráðherra, ætti að duga til að koma fjárhagnum á réttan kjöl, að minnsta kosti um sinn. Flestir átta sig á því að betri árangur kallar á meiri kröfur og því má gera ráð fyrir að kostnaður við handknattleikslandsliðið okkar aukist á næstu árum. Þeim aukna kostnaði ætti hins vegar ekki að mæta með áframhaldandi auknum framlögum ríksins, enda gerir velgengnin sambandinu fært að auka aðrar tekjur sínar. Þetta sést til að mynda ef horft er til reynslu Dana, sem urðu Evrópumeistarar í fyrravetur. Þá jukust útgjöldin í kjölfarið – en einnig tekjurnar.
Samkvæmt útreikningum dagblaðsins Börsen þarf aðalstuðningsaðili landsliðsins að greiða árlega átta milljónir danskra króna til danska handknattleikssambandsins, eða hátt í 130 milljónir íslenskra króna. Það gerir sambandinu fært að reka sig, sem er brýnt þar sem ekki er hægt að treysta á vilja skattgreiðenda til að borga enda er enginn skortur á góðum málefnum, eins og flestir ríkissjóðir fá að kynnast. Það er áskorun fyrir handknattleiksforystuna hér heima að vinna úr þessum árangri og glutra ekki niður tækifærinu til að koma varanlegu skikki á fjárhag sambandsins, sem er forsenda fyrir áframhaldandi árangri.
Það hefur sýnt sig að iðkun íþrótta tekur til sín mikið fjármagn. Árlega verja ríki og sveitarfélög gríðarlegum fjármunum í uppbyggingu íþróttamannvirkja sem kostar síðan mikið að reka. Engum dylst að undanfarin ár hefur átt sér stað mikil endurnýjun mannvirkja og nægir þar að nefna gervigrasvelli, knattspyrnuhallir, íþróttastúkur, íþróttahús, sundlaugar, frjálsíþróttahöll og frjálsíþróttabrautir. Lítið sveitarfélag eins og Ölfus taldi sér ekki annað fært en að verja sem svaraði einum milljarði króna í að byggja upp íþróttamannvirki vegna unglingalandsmóts Íslands sem haldið var í Þorlákshöfn í byrjun ágústmánaðar. Á næsta ári verður mótið haldið í Grundarfirði og sjálfsagt stendur metnaður heimamanna til þess að halda það með líkum hætti. 10 þúsund gestir mættu á mótið í Þorlákshöfn, sem var allt hið glæsilegasta, en reikningurinn bíður útsvarsgreiðenda og hann hlýtur að vera þeim bæði umhugsunar- og áhyggjuefni. Á næsta ári verður Landsmót UMFÍ haldið á Akureyri en það er fjölmennasta íþróttahátíð sem haldin er hérlendis. Kostnaður Akureyringa vegna undirbúningsins hleypur á hundruðum milljóna króna.
Það hefur ávallt verið togstreita á milli almenningsíþrótta og afreksíþrótta, einfaldlega vegna þess að fjármunir eru takmarkaðir. Afreksíþróttir færa okkur skemmtun og kitla þjóðarstoltið en almenningsíþróttir bæta heilsuna Nauðsynlegt er að þarna á milli sé skynsamlegt jafnvægi en um leið er nauðsynlegt að skynsamlega sé staðið að fjármögnun íþróttanna.