Hrafnarnir hafa fylgst af athygli með fréttum af Lyfjastofnun að undanförnu. Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri stofnunarinnar, tók ákall verkalýðshreyfingarinnar og forystu atvinnurekenda um að ríkisstofnanir sýndu hófsemi þegar það kæmi að gjaldskrárhækkunum um áramótin alvarlega. Þá hækkaði Lyfjastofnun gjaldskrá sína um 8,7%.
Þá tók hún skipun fjármálaráðherra þegar fjárlög þessa árs voru kynnt í haust um að ríkisforstjórar sýndu ráðdeild og aðhald með röggsemi og tilkynnti að frá og með janúar myndi stofnunin hætta svara símtölum frá þeim sem til hennar þurfa að sækja. Umboðsmaður Alþingis er nú farinn að skoða þá ákvörðun og það kæmi hröfnunum ekki á óvart ef sjálfur Umboðsmaður Íslands, Einar Bárðarson, hafi eitt og annað um málið að segja.
Einmanalegt um að líta
En þar með var aðhaldinu ekki hætt. Í síðustu viku birtist tilkynning á vef stofnunarinnar um hinn sársaukafulla niðurskurð sem gripið hefur verið til hjá stofnuninni. Þar kom meðal annars fram að starfsfólki hafi fækkað um 10% - störfin eru farin úr því að vera 83 niður í 75. Hrafnarnir geta best trúað að einmanalegt sé um að líta á göngum Lyfjastofnunarinnar þar sem símarnir hafa fyrir löngu þagnað.

Til þess að sjá hversu fáliðað er á Lyfjastofnun má benda á að 300 starfsmenn starfa hjá sambærilegri stofnun í Noregi. Norðmenn eru 5,5 milljónir og þar af leiðandi þyrftu starfsmenn norsku stofnunarinnar að vera 1.031 nú eða þá starfsmennirnir á Íslandi að vera 22.
„Það tókst"
Í því ljósi ætti nýlegt rekstrarafrek forstjóra stofnunarinnar ekki að koma neinum á óvart. Lyfjastofnun sendi frá sér tilkynningu í vikunni um að búið væri að leggja niður tvö svið hjá stofnuninni vegna hagfræðinga. Eins og segir í tilkynningu:
„Allra leiða var leitað til að koma í veg fyrir uppsagnir starfsfólks. Það tókst.“
Hrafnarnir velta fyrir sér hvaða starfa þetta fólk hafði á þessum tveimur sviðum fyrst hægt er að leggja þau niður án þess að það hafi áhrif á stofnunina. Og hvað á þetta fólk að gera á þeim sviðum sem gátu starfað án þessara starfsmanna?
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.