Fyrir tveimur áratugum leit bókin Freakonomics dagsins ljós.

Fyrir tveimur áratugum leit bókin Freakonomics dagsins ljós.

Bókin naut mikilla vinsælda en hugmyndin að baki henni var að sýna hvernig hagfræðikenningar í tengslum við hvata og ósamhverfar upplýsingar móta samfélög í mun ríkari mæli en fólk gerir sér almennt grein fyrir.

***

Eftir að Sigurður Ingi Jóhannesson tók við fjármálaráðuneytinu hafa starfsmenn ráðuneytisins unnið að þróun nýrrar nálgunar í þjóðhagfræði. Um er að ræða svokallaða Singanomics en hún sýnir fram á að stjórnlaus útgjaldaaukning í ríkisfjármálum sé í raun aðhaldssöm og styðji við verðbólgumarkmið peningamálastefnunnar – það er að segja að því leyti að eyðslan gæti verið mun meiri.

Sigurður Ingi, erkiklerkur Singanomics. útskýrði þetta ágætlega í viðtali við Kristján Kristjánsson í þættinum Sprengisandi þann 25. ágúst síðastliðinn. Þar sagði fjármálaráðherra:

„Þetta eru hundrað milljarðar þrjú ár í röð [sem niðurstaða ríkisreiknings var betri um en í fjárlögum]. Ef við hefðum eytt þessum hundrað milljörðum, öll árin, þá værum við í vondum málum og það væri hægt að segja að við hefðum gert mistök. En við notuðum ekki þessa peninga í það. Við notuðum þá til þess að lækka skuldir. Þannig að við erum búin að styrkja hagkerfið þessi þrjú ár í röð.“

***

Týr gerir sér grein fyrir að lesendur þurfa að vera þjálfaðir í Singanomics til að skilja hvað ráðherrann er að segja. En kjarninn er þessi: Hallinn hefur verið minni af fjárlögum undanfarinna ára meðal annars vegna verðbólgu-áhrifa á tekjuhliðinni – það er að segja viðvarandi verðbólga eykur skatttekjur tímabundið.

Samkvæmt kenningum Singanomics notaði ríkið hallann af ríkisrekstrinum til þess að „lækka skuldir“ ríkissjóðs – að minnsta kosti í samanburði við ímyndaðan heim þar sem
hallinn hefði getað verið miklu meiri.

***

Eigi að síður var halli af rekstri ríkissjóðs og sá hallarekstur er fjármagnaður með mikilli skuldabréfa- og víxlaútgáfu ríkisins sem ekki sér fyrir endann á. Sú útgáfa er sjálfstætt vandamál þegar kemur að vaxtarkjörum í íslensku hagkerfi.

En svoleiðis leiðindi skipta engu í augum fylgismanna Singanomics. Það er kannski engin furða að verðbólga reynist jafn þrálát og raun ber vitni og þátttakendur á fjármálamarkaði hafi jafn litla trú á að ríkið geri eitthvað í þeim efnum sem gæti skipt máli.

Týr er einn af föstum ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 11. september 2024.