Hugtök eins og „græðgisvæðing“ og „sjálftaka“ hafa verið vinsæl í heimsósómagreinum Heimildarinnar undanfarin ár. Svona í bland við athugasemdir umhvað ritstjórninni þykir eðlileg arðsemi í hinum og þessum atvinnugreinum.
Þær hugmyndir um arðsemi eru raunar ekki í neinu samræmi við það sem góðir rekstrarmenn í atvinnulífinu telja viðunandi eða varlegt, til dæmis í samhengi við áhættulausa vexti. En hver maður hefur sinn smekk og Heimildarmenn mega hafa aðrar skoðanir.
Má raunar segja það stjórnendum miðilsins til hróss að þeir hafa farið eftir því sem þeir hafa prédikað.
Miðað við nýlegar fregnir af starfseminni hafa þeir gengið á undan með góðu fordæmi um að halda arðsemi í lágmarki, jafnvel þó svo útgáfan hafi fengið 67 milljónir króna í ríkisstyrk síðasta haust.
Fregnir hafa verið af því sagðar að útgáfan rói „fjárhagslegan lífróður“ og að gripið hafi verið til uppsagna allnokkurra blaðamanna á ekki stórri ritstjórn. Auk þess verður útgáfudögum enn fækkað, svo blaðið verði mánaðarrit héðan í frá.
Engum sögum fer af því hvernig til tókst (eftir að ríkisstyrkurinn skilaði sér) með umdeild kaup útgáfufélagsins á vef Mannlífs af Reyni Traustasyni, sem var líka einn hluthafa Heimildarinnar.
Hann er faðir Jóns Trausta Reynissonar, framkvæmdastjóra Heimildarinnar, og þar af leiðandi tengdafaðir Ingibjargar Daggar Kjartansdóttur ritstjóra. Mannlíf var rekið með miklu tapi og fátt sem bendir til viðsnúnings þar, en vænn hópur hluthafa Heimildarinnar yfirgaf samkvæmið við svo búið.
„Tóku" sér 73 milljónir úr rekstrinum og ráku svo starfsfólk
Óðinn fletti Tekjublaði Frjálsrar verslunar og varð starsýnt á hákarlalista fjölmiðlafólks. Þar voru þau hjónin, framkvæmdastjórinn og ritstjórinn, í 7. og 8. sæti með um 1,8 milljónir króna á mánuði.
Þórður Snær Júlíusson, fyrrverandi ritstjóri Heimildarinnar og þingmaður Samfylkingarinnar í eitt stundarkorn, er ekki langt undan með 1,5 milljón króna í mánaðarlaun.
Það eru ákaflega rífleg blaðamannalaun á litlum miðli sem ekki vegnar vel, svo í fyrstu hugsaði Óðinn með sér að ekki væri nema von að reksturinn væri þungur þegar yfirstjórnin semur svona við sjálfa sig.
Samtals „tóku“ þau þrjú sér 73 milljónir króna úr rekstrinum, og eru þá lífeyrisgreiðslur ekki meðtaldar, svo notast sé orðalag þeirra sjálfra á heimildinni Heimildinni.
Svo hugsaði Óðinn það aðeins betur og áttaði sig. Ritstjórarnir þáðu þessi laun af einskærri fórnfýsi, einmitt til þess að tosa arðsemina niður. Nú er bara að vona að Logi ráðherra hækki ekki ríkisstyrkinn ennþá meir og eyðileggi þeirra þrotlausa og óeigingjarna starf gegn arðseminni í fjölmiðlarekstrinum.
Óðinn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.
Athugasemd hefur borist frá Jóni Trausta Reynissyni, framkvæmdastjóra Heimildarinnar.
> Tölurnar sem þið birtið undir merkjum Frjálsrar verslunar eru ekki tölur yfir mánaðarlaun mín hjá fyrirtækinu.
Eftirfarandi er sannanlega röng staðhæfing/ásökun og flokkast sem meiðyrði:
-Ásökun um að ég hafi „tekið“ í „sjálftöku“ launagreiðslur frá félaginu, m.a. með orðalaginu: „Ekki væri nema von að reksturinn væri þungur þegar yfirstjórnin semur svona við sjálfa sig.“
Ég fer fram á að ásökunin verði dregin til baka með afsökunarbeiðni, enda er hún augljóslega ósönn.
Eftirfarandi er ósanngjarnt og villandi, að því er virðist meðvitað:
-Að rekstur sé þungur (í sama samhengi), þegar um er að ræða tölur frá árinu 2024 en atburði ársins 2025. Rekstur 2024, eins og 2023, var í jafnvægi. Fagblaðamönnum á sviði viðskipta ætti að vera kunnugt um þetta og því er ekki annað hægt að álykta en að um meðvitaðar dylgjur sé að ræða í því skyni að ófrægja samkeppnisaðila.
-Vitnað er til „kaupa“ á Mannlíf, en það og tengdar eignir voru afhendar félaginu á 1 krónu, eins og opinbert er, sem væri sanngirnismál að tilgreina.
Ég fer fram á að þessar upplýsingar, sem varða beint efni umfjöllunarinnar, verði tilgreindar í sömu umfjöllun.
Athugasemd ritstjóra Viðskiptablaðsins: Sjálfsagt er að verða við beiðni um að birta ofangreindar athugasemdir framkvæmdastjóra Heimildarinnar við skoðanapistil Viðskiptablaðsins.