Gullhúðun á regluverki Evrópusambandsins og val á útfærslum sem auka kostnað atvinnulífsins virðist vera leiðarstef í íslenska embættismannakerfinu. Vafalaust er þetta enn eitt birtingarform þeirrar aftengingar embættis- og stjórnmálamanna við efnahagslífið og verðmætasköpun sem orðið hefur hér á landi.
Rafnar Lárusson, fjármálastjóri Landsvirkjunar, skrifaði eftirtektarverða grein í Viðskiptablaðið í síðustu viku. Þar fjallar hann um hvernig tekist hefur til við innleiðingu evrópska regluverksins um sjálfbærni – Taxonomy og CSRD – og hvaða hættur kunna að fylgja því.
Búið er að innleiða svokallaða flokkunarreglugerð. Við þá innleiðingu ákváðu íslensk stjórnvöld að grafa undan samkeppnishæfni fyrirtækja og skapa óþarfa flækjustig við gerð ársreikninga með því að láta mun fleiri fyrirtæki falla undir gildissvið reglugerðarinnar en gerist á hinu sameiginlega efnahagssvæði.
Eins og Rafnar bendir réttilega á í grein sinni hafa ráðamenn í Evrópu vaknað upp við vondan draum og áttað sig á því að sjálfbærniregluverkið – í núverandi mynd – er aðför að samkeppnishæfni álfunnar. Reglurnar eru einfaldlega of umsvifamiklar og kostnaðarsamar, sérstaklega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Til að bregðast við þessu hefur verið lagður fram svokallaður bandormur (e. omnibus directive) til að draga úr kostnaði og flækjum sem fylgja regluverkinu.
Bandormurinn felur meðal annars í sér breytingu á einu af upprunalegu viðmiðum CSRD, um að reglurnar taki til fyrirtækja sem hafa yfir 250 starfsmenn. Samkvæmt því féllu um 300 íslensk fyrirtæki undir reglurnar.
Þetta þýðir að nær allt viðskiptahagkerfið yrði ofurselt reglubákninu, enda standa þessi þrjú hundruð stærstu fyrirtæki landsins fyrir yfir 90% verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Ef bandormurinn verður samþykktur í núverandi mynd, þar sem mörkin færast upp í 1.000 starfsmenn, myndu aðeins um tíu íslensk fyrirtæki falla undir herta upplýsingaskyldu.
Rafnar telur að óbreyttu muni kostnaður atvinnulífsins við innleiðingu regluverksins nema tugum milljarða. Hann skrifar:
„(…) þá nemur heildarkostnaðurinn, með óljósum ávinningi, um 15 milljörðum króna. Þetta eru fjárhæðir sem geta haft afgerandi áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja, sérstaklega í alþjóðlegum samanburði þar sem fyrirtæki þurfa ekki að lúta sömu kröfum.“
Það er í höndum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að vinna að innleiðingu CSRD. Það vekur óneitanlega áhyggjur í ljósi þeirra vinnubragða sem þar hafa ríkt undanfarið – einkum varðandi efnahagslega hagsmuni.
Orðrómur gengur um að Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, hyggist innleiða CSRD-tilskipunina í óbreyttri mynd. Með því setur hún kíkinn fyrir blinda augað á þeirri staðreynd að ráðamenn í Evrópu reyna nú hvað þeir geta að vinda ofan af þeirri vitleysu sem núverandi fyrirkomulag felur í sér. Hér á landi stendur þá til að setja blýhúð ofan á regluverk sem þegar hefur verið gullhúðað.
Í stað þess ætti Ísland að bíða og fylgjast með breytingum á tilskipuninni í Evrópu áður en ákvörðun er tekin. Annars verður niðurstaðan gríðarlegur og tilgangslaus kostnaður fyrir atvinnulífið – kostnaður án sýnilegs ávinnings.
Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 2. júlí 2025.