Mannskepnan vinnur nú ötullega að því að brjóta niður ávinning síðustu hundrað ára eða svo, þegar verkaskipting og kapítalismi hafa fært vestrænu samfélagi velmegun sem á sér ekki fordæmi í tugþúsunda ára sögu tegundarinnar.

Þegar samskipti eru frjáls beinast allar athafnir mannsins í átt til almannaheilla, því þá plumum við okkur ekki nema með því að þjóna öðru fólki eins vel og við mögulega getum. Meira að segja siðblindingjar – sem því miður er nóg af – hagnast á því að gagnast öðru fólki í frjálsu samfélagi mannanna. Þegar þeir hætta að fá þau skilaboð molnar hratt undan manngæsku í þjóðfélaginu og sérhagsmunir verða almannahagsmunum yfirsterkari.

Kapítalisminn er fórnarlamb eigin velgengni. Almennt áttar fólk sig ekki á samhengi frelsis og þeirrar áður óséðu hagsældar sem það nýtur um þessar mundir. Samfélagið situr á eplatrjágrein og sargar stöðugt í hana við trjástofninn til að tryggja sér ávextina.

  • Hið opinbera hrifsar til sín sífellt stærri hluta af afrakstri fólks þegar það stendur sig vel.
  • Seðlabankar færa auð frá almenningi með því að prenta peninga, sem veldur hærra verðlagi og grefur undan samfélaginu. Ungt fólk hefur ekki lengur efni á því að stofna fjölskyldu og fjárfesta í húsnæði.
  • Atvinnulífið þarf að mæta sífellt fleiri íþyngjandi kröfum með kostnaði sem birtist í hækkandi vöruverði.
  • Rekstur fyrirtækja tekur æ meira mið af öðrum markmiðum en því að þjóna almenningi sem best.

Á þessa þróun horfa stjórnendur í atvinnulífi og aðhafast lítið, enda er þægilegt og átakalítið að láta sig fljóta með straumnum að feigðarósi. Ef þeir hins vegar vildu horfa fram á veginn og á stóru myndina myndu þeir gerast óþreytandi talsmenn frelsis og kapítalisma, fyrirkomulagsins sem velmegun okkar allra byggir á.

Höfundur er skrifstofumaður.