Hrafnarnir velta fyrir sér hvort Samkeppniseftirlitið undir forystu Páls Gunnars Pálssonar sé orðið að sjálfstæðu efnahagsvandamáli hér á landi.

Hrafnarnir velta fyrir sér hvort Samkeppniseftirlitið undir forystu Páls Gunnars Pálssonar sé orðið að sjálfstæðu efnahagsvandamáli hér á landi.

Á mánudag birtist tilkynning í Kauphöllinni þar sem Gunnþór Ingvarsson forstjóri Síldarvinnslunnar segir farir sínar ekki sléttar og ekkert verði að kaupum félagsins á helmingshluta í Ice Fresh, sölufyrirtæki Samherja. Samkeppniseftirlitið hafi farið offari í gagnaöflun vegna viðskiptanna og það sé í engu samhengi við umfang og eðli viðskiptanna. Í tilkynningunni segir meðal annars: „Því líti út fyrir að gagnaöflunin sé farin að snúast um annað og meira en umrædd viðskipti.“

Hrafnarnir eiga erfitt með að sjá hvað Páll Gunnar er að skipta sér af eignarhaldi á sölufyrirtæki fyrir íslenskar sjávarafurðir sem starfar á alþjóðlegum markaði. Ekkert í samkeppnislögunum fjallar um hámark aflahlutdeildar einstakra útgerða í nytjastofnum. Það er hins vegar gert í lögum um stjórn fiskveiða en í þeim er að finna takmarkanir á aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila. Það er Fiskistofa sem hefur eftirlit með þessu ákvæði en ekki Páll Gunnar Pálsson.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi grein birtist í blaðinu sem kom út 5. júní 2024.