Árið 2021 voru tillögur verkefnisstjórnar stjórnvalda um framtíð landbúnaðar kynntar undir nafninu Ræktum Ísland. Í þeim tillögum var eitt og annað skynsamlegt að finna. Það getur talist nýmæli þegar kemur að tillögum um landbúnaðarmál hér á landi.
Þannig vöktu hrafnarnir sem starfa ásamt Tý á ritstjórn Viðskiptablaðsins athygli á því í síðustu viku að í tillögunum kemur fram að forsenda samstarfs innlendra kjötframleiðenda væri niðurfelling eða lækkun tolla á innfluttu kjöti. Það myndi styrkja innlenda framleiðslu en að sama skapi tryggja hag neytenda og aðgengi að gæðakjöti á góðu verði.
Týr furðar sig á að ekki sé meira rætt um þessa hlið málsins. Ljóst er að hagur neytenda af frekara samstarfi á milli innlendra kjötframleiðenda verður enginn ef ekki kemur til breytinga á tollaumhverfinu.
Það eru ekki margir sem átta sig á þeim tíðindum sem felast í kaupum Kaupfélags Skagfirðinga á Kjarnafæði – Norðlenska. Norðlenska eru leifar af KEA-veldinu, KEA var lengi stærsti vinnuveitandinn á Eyjafjarðarsvæðinu. Í dag er félagið fjárfestingafélag og mætti lýsa því sem fé án hlutverks fremur en fé án hirðis.
Annars er fróðlegt að bera saman Kaupfélag Skagfirðinga og svo KEA. Líklega hefði engum samvinnumanninum dottið það í hug að það sem var áður lítið Kaupfélag í Skagafirði myndi kaupa það sem eftir væri af atvinnurekstri KEA. Eigið fé KEA er í kringum 9,5 milljarðar en eigið fé KS er 58,5 milljarðar. KEA er með eigið fé sem nemur 16% af eigið fé KS. KEA var líkt og KS bæði í matvælaframleiðslu og sjávarútvegi en hefur í dag lítið hlutverk í atvinnurekstri norðan heiða.
Skal engan undra að einhverjir tali um Eyjafjörðinn nú sem Skagafjörð Eystri í kjölfar kaupanna.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskipablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom 17. júlí 2024.