Samtök iðnaðarins birtu fyrr í mánuðinum áhugaverða úttekt á þróun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði undanfarinn áratug. Við blasir að á næsta ári leggi sveitarfélög landsins samtals tæplega 39 milljarða skatt á húsnæði fyrirtækja. Það verður 50% hærri skattur að raunvirði en fyrir 10 árum. Álagningin er mun hærri, miðað við hlutfall af landsframleiðslu, en í hinum norrænu ríkjunum.

Hækkun fasteignaskattanna skýrist af miklum og afbrigðilegum hækkunum fasteignamats á tímabilinu vegna brenglaðs húsnæðismarkaðar. Þessa dagana liggja sveitarstjórnarmenn yfir gerð fjárhagsáætlana næsta árs. Flestir munu taka þann kost – eins og undanfarin ár – að halda álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði óbreyttri og þiggja þær hækkanir sem þannig renna „sjálfkrafa“ inn í sveitarsjóðina vegna hækkana fasteignamats.

Svo allrar sanngirni sé gætt hafa nokkur sveitarfélög lækkað álagningarprósentu af og til undanfarinn áratug til að mæta hækkunum fasteignamats. Kópavogur, Hafnarfjörður, Vestmannaeyjar og Akranes koma fyrst upp í hugann. Þau hafa engu að síður tryggt sér myndarlega hækkun skatttekna. En þetta eru undantekningarnar.

SI bendir á að í kerfinu felist hvati fyrir sveitarfélög að takmarka lóðaframboð til að halda uppi verði húsnæðis og þannig auka tekjur af fasteignasköttum. Starfshópur Félags atvinnurekenda, Sambands íslenzkra sveitarfélaga, Húseigendafélagsins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Landssambands eldri borgara skilaði í fyrra ýmsum tillögum um bætt kerfi fasteignaskatta. Ein þeirra er að sett verði í kerfið nokkurs konar skattabremsa, þ.e. meðalhófsþak á breytingu fasteignaskatta hvort sem er til hækkunar eða lækkunar. Þannig væru fasteignaeigendur varðir fyrir óhóflegum hækkunum fasteignamats, en sveitarfélögin hefðu líka vörn gagnvart verðfalli og lækkun matsins. Með þessu væri komið í veg fyrir hvata sveitarfélaganna til að stuðla að óeðlilegum hækkunum fasteignaverðs.

Útreikningar SI sýna vel að full þörf er á að lögfesta skattabremsu af þessu tagi. Stjórnendum (flestra) sveitarfélaga er sjálfum ekki treystandi til að hafa hemil á skattagleðinni.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.