Á vorþingi var lagt fyrir Alþingi frumvarp fjármálaráðherra til umbóta á lögum um tekjuskatt.  Lagðar voru til takmarkaðar breytingar en meðal annars er gert ráð fyrir því erlendir einstaklingar og lögaðilar verði ekki skattlagðir á Íslandi af söluhagnaði hlutafjár í ákveðnum tilfellum til að auðvelda fjárfestingu á Ísland

Á vorþingi var lagt fyrir Alþingi frumvarp fjármálaráðherra til umbóta á lögum um tekjuskatt.  Lagðar voru til takmarkaðar breytingar en meðal annars er gert ráð fyrir því erlendir einstaklingar og lögaðilar verði ekki skattlagðir á Íslandi af söluhagnaði hlutafjár í ákveðnum tilfellum til að auðvelda fjárfestingu á Ísland

Auk þess var lagt til að tíu ára tímamörk til nýtingar rekstrartapa til frádráttar frá tekjum væru felld niður.

Ótti við breytingar

Ríkisskattstjóri er meðal þeirra sem sendi Alþingi umsögn um frumvarpið.  Umsögnin er aðallega neikvæð, eitt og annað er týnt til sem gallar á ofangreindu, en tvennt sérlega athyglisvert. Annars vegar telur ríkisskattstjóri breytinguna auka hættu á skattasniðgöngu og segir: „Vakin er athygli á því að í frumvarpinu eru engar sérstakar skorður settar á eignarhald í gegnum félög eða sjóði á lágskattasvæðum. Telja verður að talsverðar líkur séu á því að slíkt leiði til færslu eignarhalds á hlutabréfum í eigu íslenskra aðila til þekktra skattaskjóla…“

Hins vegar er ríkisskattstjóri á móti því að rekstur geti nýtt tap til frádráttar frá tekjum án þess að sá möguleiki falli niður að tíu árum liðnum, m.a. vegna þess að ríkið tapar á því. Vísað er til þess að 2021 til 2023 hafi fallið niður 374 milljarða tap hjá atvinnulífinu sem var um 75 milljarða króna virði fyrir ríkið.  Þannig að ef atvinnulífinu yrði leyft að nota eigið tap þá lækki það tekjuskatt til lengri tíma.

Það sætir nokkurri furðu að takmarkaðar breytingar til þess að liðka fyrir erlendri fjárfestingu í íslenskum félögum séu taldar valda talsverðum líkum á því að íslenskir einstaklingar hlaupi þá þegar til og komi eignarhaldi sínu á hlutafé fyrir í þekktum skattaskjólum.  Samkvæmt gildandi lögum, sem rekja má til breytinga sem hófust árið 1998, er raunin sú að innlend einkahlutafélög njóta mun betri stöðu heldur en erlend félög, hvort sem tlllagðar breytingar væru samþykktar eða ekki, enda greiða þau ekki tekjuskatt af tekjum af íslensku hlutafé.

Því geta þessir sömu íslensku einstaklingar sparað sér hlaupin, fyrirhöfnina og kostnaðinn við að stofna félag erlendis með því t.d. að stofna það bara á Húsavík – eða einhversstaðar annarsstaðar á Íslandi.  Áhyggjur ríkisskattstjóra eru því ekki réttmætar.  Hann hefur kannski aðallega áhyggjur af því að íslenskir einstaklingar gefi á endanum ekki upp tekjur sínar, en af hverju ætti það að standa í vegi fyrir úrbætum á lögum sem eiga að stuðla að fjárfestingu erlendra aðila í íslensku hlutafé?

Ofurskattlagning innlendra aðila

Frádráttarbærni uppsafnaðs taps aðila í rekstri þýðir einungis það að rekstrarkostnaður er greiddur fyrir skatta, þ.e. kostnaður fyrri ára sem tapið endurspeglar greiðist upp áður  byrjað er að greiða skatt af tekjum.  Þetta er grundvallaratriði í skattlagningu rekstraraðila.  Sem dæmi, íslenskt einkahlutafélag skilar 30% framlegð af veltu á meðan kostnaður nemur þá 70% af veltu greiðir 20% skatt ef tekjum eftir kostnað þannig að raunveruleg skattlagning er 20% af nettó tekjum.  Þetta er í samræmi við gildandi lög.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Ef sami aðili þarf að greiða kostnaðinn eftir skatta þá er skatturinn lagður á tekjur en ekki hagnað, þ.e. af hverjum 100 í veltu eru greiddar 20 í skatt en kostnaðurinn breytist ekki og er 70.  Það leiðir til raunverulegrar skattlagningar af hagnaði sem nemur 20/30 eða um 66,7%.  Ef framlegðin af rekstri í slíku tilfelli færi undir 20% þá færi raunveruleg skattlagning yfir 100%. Kostnaður er auðvitað mismunandi milli aðila en þetta gerist í grunninn ef rekstraraðili getur ekki dregið kostnað frá tekjum – þó það sé eldri kostnaður.

Afdrif frumvarpsins

Tillögurnar til umbóta eru í eðli sínu jákvæðar fyrir rekstur á Íslandi og fyrir fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi, þeir eru skattlagðir heima hjá sér í samræmi við þarlendar reglur.  Því má spyrja sig af hverju ríkisskattstjóri leggst gegn breytingum þar sem dregið er úr skattlagningu til að örva fjárfestingu eða vandamál lagað sem leiðir til ofurálagningu skatta.

Undirritaður kann ekki svar við því. En frumvarpið sem um ræðir var lagt fram af fjármála- og efnahagsráðherra og komst ekki úr nefnd áður en þingstörfum lauk.  Enn sem komið er verður því ekkert úr úrbótum.  Kannski er ráðherra og þingi erfitt að koma við umbótum á lögum um tekjuskatt ef ríkisskattstjóri er á móti þvi?  Vonandi verður málið tekið aftur upp á haustþingi og jafnvel gengið lengra í þörfum umbótum á lögum um tekjuskatt.

Höfundur er lögmaður og einn eigenda Logos.