Það er ánægjulegt að fylgjast með því hvernig Donald Trump laðar fram það besta í fólki. Nú hefur honum tekist að galdra fram einarða andstöðu við tolla hjá andstæðingum sínum, sem margir hverjir hafa hingað til ekki lagst mikið gegn því að ríkið geri upptækan hluta af sjálfsaflafé fólks og fyrirtækja.

Þannig hafa ýmsir málsmetandi álitsgjafar og aktívistar í stjórnmálum lýst yfir áhyggjum af þeim áhrifum sem hinir auknu innflutningstollar Bandaríkjanna muni óefað hafa á efnahagslíf heimsins og þar með lífskjör almennings. Margir þeirra töldu áður mjög mikilvægt að fólk og fyrirtæki væru „örugg tekjulind“ hins opinbera.

Þetta eru ánægjuleg sinnaskipti, því í þeim felst viðurkenning á mikilvægi frjálsra viðskipta fyrir hagsæld og velferð fólks. Tollar eru að grunni til sama fyrirbærið og skattar – eini munurinn er að þeir eru lagðir á viðskipti á milli landa. Hið opinbera gerir upptækan hluta þeirra verðmæta sem fólk sýslar með, alveg eins og þegar það leggur skatt á innkaup heimila eða launagreiðslur fyrirtækja til starfsfólks.

Það er því alveg rétt hjá gagnrýnendum Trumps að tollar og skattar bitna á efnahagslífinu og lífskjörum almennings. Þar er ríkið að skerast í leikinn og hindra frjáls samskipti (viðskipti) annarra, gera verðmæti upptæk til að ráðstafa þeim sjálft, án þess að þurfa að bera ábyrgð á nýtingu þeirra.

Þessi eignaupptaka dregur úr hvata fólks og fyrirtækja til að skapa verðmæti og færir óteljandi lausnir einstaklinga yfir í örfáar heildarlausnir opinberra aðila sem ekki hafa fjárhagslega hagsmuni af því að veita ódýra og góða þjónustu og hafa ekki þá þekkingu á mismunandi aðstæðum og þörfum fólks sem það sjálft eitt býr yfir. Þannig eru tollar og skattar dragbítar á lífskjör almennings, alveg eins og andstæðingar Bandaríkjaforseta segja.

Höfundur er skrifstofumaður.