Því er stundum fleygt að ferðaþjónustan þurfi að „skila meiru til samfélagsins“. Yfirleitt þýðir það orðalag að fólk vilji að fleiri krónur skili sér í ríkissjóð frá atvinnugreininni. Og oftast þýðir það einfaldlega að fólk vill hækka skatta.
Þetta sjónarmið virðist hafa verið nokkuð hávært við valkyrjuborðið fyrir jólin, þegar stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar var samin. Niðurstaðan eru áform um stóraukna og óútfærða nýja skattlagningu á ferðaþjónustu, komugjöld og auðlindagjöld. Í orðalaginu liggur að mikill flýtir eigi að vera á álagningunni.
Valkyrjur virði nauðsynlegan fyrirvara
Þessar hugmyndir um nýjar álögur virðast ganga út á að ferðamaðurinn borgi skattinn, ekki fyrirtækin. Aftur á móti er það svo að ef nýjar álögur eru lagðar á ferðaþjónustu með innan við 12 mánaða fyrirvara frá því að upphæð og útfærsla hans er kynnt, þá borga fyrirtækin skattinn innan úr rekstri sínum en ekki ferðamaðurinn úr eigin vasa. Þveröfugt við markmiðið. Það er heldur ekki nóg að tilkynna um óljós áform. Fyrirvarinn byrjar ekki að tikka fyrr en tilkynnt hefur verið hver skatturinn er, hver upphæðin er, hver greiðir og hver á að innheimta. Ferðaþjónusta er seld 12-18 mánuði fram í tímann. Þetta hefur ítrekað verið útskýrt en stjórnkerfið skellt við skollaeyrum með tilheyrandi tjóni fyrir fyrirtækin.
Formenn ríkisstjórnarflokkanna töluðu allar mjög skýrt fyrir kosningar um að fyrirvari á skattlagningu á ferðaþjónustu væri lykilatriði sem þær myndu leggja áherslu á og virða. Fólk í ferðaþjónusturekstri um allt land gerir ráð fyrir því að þær muni standa við gefin loforð.
Hvað verður um peningana?
Það er algerlega ljóst að ef leggja á margra milljarða króna auðlindagjöld á ferðaþjónustu þá verða peningarnir að skila sér í verkefni sem nýtast greininni beint. Sem samanburðardæmi má nefna að auðlindagjöld í sjávarútvegi skila sér öll til málefnasviðs og rannsókna í sjávarútvegi, og reyndar nokkrum milljörðum betur. Eigi að leggja á auðlindagjöld á ferðaþjónustu er það eðlileg krafa að tekjurnar af því verði nýttar til að auka framlög til málefnasviðs, rannsókna, markaðssetningar og fjármögnunar ferðamálastefnu stjórnvalda. Slík fjárfesting skilar margföldum ávinningi fyrir ríkið í aukinni verðmætasköpun og hún skilar fleiri krónum í tekjur til ríkissjóðs.
Þriðja hver króna sem ferðaþjónusta skapar skilar sér til samfélagsins
Ferðaþjónustan skilaði 155 milljörðum til samfélagsins í formi skatta og gjalda árið 2022. Þann 5. febrúar næstkomandi verður kynnt skýrsla Reykjavík Economics um skattspor greinarinnar 2023 þar sem búist er við að niðurstaðan nálgist 200 millarða króna.
Skattsporið er svo stórt að ein af hverjum þrem krónum sem koma inn í landið í gegn um ferðaþjónustu enda sem skatttekjur hjá ríki og sveitarfélögum. Einn þriðji af útflutningstekjum ferðaþjónustu skilast til samfélagsins. Ný ríkisstjórn ætti að kappkosta við í samstarfi við greinina að auka verðmætasköpun ferðaþjónustunnar. Það hlýtur að vera skynsamlegri nálgun.
Það þýðir að ef stjórnvöld og atvinnugreinin vinna saman að því að auka útflutningsverðmæti ferðaþjónustu um 30-45 milljarða milli ára, þá aukast skatttekjur ríkissjóðs samsvarandi um 10-15 milljarða milli ára. Er það ekki skynsamlegri nálgun fyrir alla en ný skattheimta?
Á að fórna samkeppnishæfni ferðaþjónustu til að fjármagna ný ríkisútgjöld?
Staðreyndin er sú að ferðaþjónustan skilar gríðarmiklu fé í skatttekjur til ríkis og sveitarfélaga nú þegar. Allar hugmyndir um annað eru úr lausu lofti gripnar og eiga ekki við nein rök að styðjast.
Boðuð áform um stóraukna og óútfærða skattlagningu leggja samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu að veði fyrir afar óljósan ávinning. Það er óskynsamlegt að skemma fyrir verðmætasköpun þjóðarinnar á þann hátt.
Samtök ferðaþjónustunnar eru alltaf tilbúin til uppbyggilegs samtals við stjórnvöld um framtíð og þróun atvinnugreinarinnar. En það er alveg skýrt að margra milljarða ný skattlagning unnin í flýti og með skömmum fyrirvara, þar sem skatttekjurnar skila sér ekki til nauðsynlegra verkefna á málefnasviði ferðaþjónustu, væri einfaldlega skaðleg atvinnugreininni. Það er ekki í boði.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.