Stuðningur hins opinbera við nýsköpunarfyrirtæki hefur farið ört vaxandi undanfarin ár. Skattfrádráttur nýsköpunarfyrirtækja á grundvelli laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nam um 5 milljörðum króna árið 2020 en Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) áætlar að árinu 2025 muni slíkur skattfrádráttur nema um 20 milljörðum króna. Á fáeinum árum hefur því umfang þessarar ríkisaðstoðar svo gott sem fjórfaldast.

Lögin fela í sér að fyrirtæki sem fengið hafa staðfestingu Rannís á rannsóknar- eða þróunarverkefni eiga rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti. Frádrátturinn er reiknaður sem hlutfall af útlögðum, styrkhæfum kostnaði af viðkomandi rannsóknar- eða þróunarverkefni.

Hugtakið skattfrádráttur kann að vera villandi orðaval því sé álagður tekjuskattur nýsköpunarfyrirtækis lægri en ákvarðaður frádráttur, eða sé lögaðila ekki ákvarðaður tekjuskattur vegna skattalegs taps, kemur „frádrátturinn“ til útgreiðslu úr ríkissjóði. Sé fyrirtæki rekið með tapi er því um að ræða beina styrkveitingu hins opinbera fremur en heimilaðan frádrátt frá álögðum tekjuskatti viðkomandi fyrirtækis.

Þann 1. janúar 2025 tóku gildi ýmsar breytingar á fyrrnefndum lögum. Endurgreiðsluhlutföll haldast óbreytt, þ.e.a.s. 35% af styrkhæfum kostnaði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og 25% fyrir stór fyrirtæki, sem og hámarksfjárhæð styrkhæfs kostnaðar sem stendur óbreytt í 1.100 m.kr. Breytingarnar felast í því að nú hafa ákvæðin um endurgreiðsluhlutföll og hámarksfjárhæðina verið lögfest í meginmáli laganna en áður byggði framangreint á bráðabirgðaákvæðum. Verður það að teljast jákvætt enda stuðlar það að auknum fyrirsjáanleika fyrir nýsköpunarfyrirtækin í landinu, þ.e. að endurgreiðsluhlutföllin og hámarksfjárhæðin séu ekki sífellt háð vafa um hvernig reglurnar verða á næsta ári. Hámark skattfrádráttar, eða eftir atvikum útgreiðslu úr ríkissjóði, getur því enn hæst numið 385 m.kr. fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki en 275 m.kr. fyrir stór fyrirtæki.

Töluverðar breytingar urðu á ákvæðum laganna um aðkeypta þjónustu. Er nú t.a.m. lagt bann við kostnaði frá tengdum aðilum. Aðkeypt þjónusta frá tengdum aðilum telst m.ö.o. ekki til styrkhæfs kostnaðar samkvæmt lögunum. Áður var þetta túlkun Rannís en nú er þetta orðið skýrt í lögunum. Ef nýsköpunarfyrirtæki kaupir rannsóknar- eða þróunarvinnu af ótengdum aðila hins vegar, til nota í eigin rannsóknar- eða þróunarverkefni, skal heimilt að telja til þessarar aðkeyptu rannsóknar- eða þróunarvinnu allt að 20% af hámarkskostnaði. Framangreint merkir einfaldlega að hámark styrkhæfs kostnaðar vegna aðkeyptrar þjónustu frá ótengdum aðilum er nú 220 m.kr., en var áður 200 m.kr.

Stærsta lagabreytingin hvað varðar aðkeypta þjónustu lýtur að uppruna þjónustuveitandans. Kostnaður af aðkeyptri þjónustu telst nú aðeins styrkhæfur ef þjónustan er keypt af fyrirtækjum á Evrópska efnahagssvæðinu eða í ríkjum sem Ísland hefur gert tvísköttunar- eða upplýsingaskiptasamning við. Höfundar vekja sérstaka athygli á því að skilyrði er að þjónustan sé keypt af fyrirtæki. Áhugavert verður að sjá hvernig Rannís og Skatturinn muni beita þessu ákvæði í framkvæmd þegar kemur að aðkeyptri þjónustu frá einyrkjum eða öðrum þeim einstaklingum sem vinna á eigin kennitölu. Samkvæmt beinu orðalagi laganna væri slíkur kostnaður ekki styrkhæfur.

Rannís er nú heimilt að afturkalla staðfestingu verkefnis ef umsókn byggði á röngum og villandi upplýsingum. Getur slík afturköllun Rannís á fyrra samþykki tekið til yfirstandandi, auk síðustu tveggja tekjuára. Skattinum er einnig veitt víðtækari og skýrari heimildir til að deila gögnum og upplýsingum með Rannís. Þá er nýjung að ríkisskattstjóra er heimilt að gera nýsköpunarfyrirtæki að greiða 25% álag á lækkun skattfrádráttar hafi það oftalið frádráttarbæran kostnað. Er því afar mikilvægt að nýsköpunarfyrirtæki hugi sérstaklega vel að hvers kyns upplýsingagjöf til bæði Rannís og skattyfirvalda í tengslum við rannsóknar- eða þróunarverkefni.

Önnur markverð breyting er sú að nú gildir 1.100 m.kr. hámarksfjárhæð styrkhæfs kostnaðar fyrir öll fyrirtæki sem teljast tengd og hafa sótt um skattfrádrátt á grundvelli laganna. Sé samanlagður kostnaður tengdra fyrirtækja umfram hámarkið, skiptist styrkurinn hlutfallslega milli þeirra. Í stuttu máli teljast fyrirtæki vera tengd ef þau eru hluti samstæðu eða eru undir beinu eða óbeinu meirihlutaeignarhaldi eða stjórnunarlegum yfirráðum tveggja eða fleiri fyrirtækja innan samstæðu, eða meirihlutaeignarhald eins fyrirtækis yfir öðru er til staðar samanlagt með beinum og óbeinum hætti. Umrædd lagabreyting leiðir til þess að 1.100 m.kr. kostnaðarhámarkið gildir nú fyrir samstæður í heild þegar tvö eða fleiri fyrirtæki innan samstæðu njóta skattfrádráttar á grundvelli laganna. Nýsköpunarfyrirtæki þurfa því nú að gæta að því að rannsóknar- eða þróunarverkefni annarra fyrirtækja innan samstæðu skerði ekki rétt þeirra skattfrádráttar.

Þá er vert að nefna að lögfest hefur verið takmörkun á framlengingu verkefna. Áður fyrr var enga slíka takmörkun að finna og gátu nýsköpunarfyrirtæki sótt um framlengingu verkefna ár eftir ár. Nú er aðeins heimilt að framlengja sama verkefni þrisvar sinnum. Ef sama verkefni hefur fengið framlengingu í þrígang getur fyrirtæki sótt um staðfestingu á nýju verkefni sem byggist á fyrra verkefni ef sýnt er fram á að áfangamarkmiðum hafi sannanlega verið náð og nýtt verkefni byggist á þeim árangri. KPMG hefur orðið vart við að nýsköpunarfyrirtækjum sem svo á við um hafi nýlega borist tilkynningar frá Rannís þar sem fyrirtækin eru hvött til þess að sækja um svokallaða undanþágu fyrir 1. apríl nk. í því skyni að vera heimilt að sækja um nýtt verkefni í formi framhaldsverkefnis fyrir 1. október nk. Umsóknarfresturinn vegna umsókna um undanþágu verkefna sem framlengd hafa verið í þrígang er sá sami og almenni umsóknarfresturinn fyrir framlengingu verkefna, þ.e. 1. apríl nk.

Höfundar hvetja fyrirtæki til að kynna sér efni lagabreytinganna vel og leita sér frekari upplýsinga eftir atvikum.

Höfundar starfa hjá KPMG Law.