Hjá því verður ekki komist, í lífi sérhvers manns, að sá tími kemur þar sem reynir á erfðir og skattlagningu þeirra. Því getur verið gagnlegt að kynna sér helstu áhrif meginreglna á þessum réttarsviðum.

Grunnreglur erfðalaga

Samkvæmt erfðalögum er erfðarétti forgangsraðað. Í grófum dráttum mætti lýsa reglunum þannig að ef maki og/eða börn eða síðari niðjar taka arf þá er arfleifanda óheimilt að ráðstafa meira en 1/3 hluta eigna með erfðaskrá. Ef hvorki maki eða síðari niðjar eru fyrir hendi erfast eignir til fjarskyldari ættingja en þá eru ekki hömlur á ráðstöfun eigna með erfðaskrá.

Hægt er að greiða arf fyrirfram , hvort heldur er til lögerfingja eða annarra. Ef arfi er ráðstafað með erfðaskrá þarf að gæta sérstaklega að tvennu. Annars vegar að öll formskilyrði laga við ritun og vottun séu uppfyllt. Hins vegar reglum um takmarkanir á arfleiðsluheimild sem gilda vegna skylduerfingja.

Um erfðafjárskatt á Íslandi

Hvernig sem til arfs kemur þá skal greiða erfðafjárskatt af öllum arfi utan arfs sem fellur til maka.

Þannig skal greiða 10% erfðafjárskatt af öllum fjárverðmætum að frádregnum skuldum og kostnaði við skipti á dánarbúi. Engan erfðafjárskatt skal þó greiða af fyrstu 1.500.000 kr. í skattstofni dánarbús og skulu erfingjar njóta skattfrelsis í hlutfalli við arf sinn (þetta skattfrelsi á ekki við þegar arfur er greiddur út fyrirfram ).

Meginregla er að erfðafjárskattur greiðist af heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna að frádregnum skuldum og tilteknum kostnaði við búskipti. Áhugavert er að í framkvæmd hefur reynt á það hvort kvaðir hafi sömu áhrif, t.d. þegar fyrirframgreiddur arfur í formi húsnæðis er veðsettur. Í þeim tilfellum lækkar erfðafjárskattstofn ekki sem nemur veðsetningu ef erfingjar verða ekki skuldarar heldur bara veðsalar.

Til þess að hægt sé að ákvarða fjárhæð erfðafjárskatts þarf að ákvarða skattstofninn. Það gerist í grundvallaratriðum þannig að fundin eru heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta hins látna á andlátsdegi að frádregnum skuldum og kostnaði. Af tímasetningu ákvörðunar leiðir að breytingar á verðmæti eftir andlátsdag hafa ekki áhrif á skattstofninn.

Nánar um samspil tekjuskatts og erfðafjárskatts á Íslandi

Þó að ofangreind aðferð við ákvörðun erfðafjárskatts sé í grundvallaratriðum einföld þá geta komið upp fjölmörg álitamál. Hér er reynt að varpa ljósi á örfá.

Þegar aðili deyr þá tekur dánarbú við eignum og skyldum hins látna. Það er skattskylt af tekjum sínum í 37,6% skatthlutfalli.

Eignaauki sem fólk fær í arf er undanþeginn tekjuskatti, sbr. 28. gr. tekjuskattslaga, að því gefnu að erfðafjárskattur hafi verið greiddur.

Íbúðarhúsnæði

Miða skal skattstofn til erfðafjárskatts við skráð fasteignamat íbúðarhúsnæðis, sanna þarf það sérstaklega ef erfingjar telja það of hátt.

Sérregla um íbúðarhúsnæði leiðir til þess að almennt stofnast ekki til tekjuskattsskyldu þegar sala á sér stað eftir tveggja ára eignarhaldstíma frá því að kaup hins látna áttu sér stað. Ef dánarbú eða erfingi selur íbúðarhúsnæði sem hinn látni átti skemur en tvö ár, telst hagnaðurinn til skattskyldra tekna og er skattlagt að fullu í viðeigandi skatthlutfalli.

Af þessu leiðir að það getur skipt verulegu máli hvenær íbúðarhúsnæði er selt hafi arfláti eignast það skemur en tveimur árum fyrir andlát.

Annað gildir t.d. um sumarhús. Sala með hagnaði er alltaf skattskyld, en ef dánarbú selur er hagnaðurinn skattlagður í 37,6% hlutfalli en 22% ef erfingi selur. Þannig getur þetta samspil leitt til verulega aukinnar skattlagningar í sumum tilfellum en öðrum ekki, allt eftir atvikum.

Hlutabréf og önnur verðbréf

Lög taka ekki með skýrum hætti á ákvörðun skattstofns erfingja við sölu hlutafjár. Af almennum reglum þeirra og réttarframkvæmd má ráða að erfingjar geta verið bundnir af stofnverði bréfa arfláta þegar fundinn er út stofn til söluhagnaðar hlutabréfa vegna tekjuskatts. Sem dæmi má nefna einstakling A sem kaupir hlutabréf á kr. 100. Þegar A fellur frá hefur virði bréfanna hækkað í kr. 1.000. Reiknast þá erfðafjárskattur erfingja B miðað við virði hlutabréfanna, þ.e. kr. 1.000. Mörgum árum síðar selur B umrædd hlutabréf á kr. 2.000. Skattstofn við söluna reiknast þá kr. 2.000-100 = kr. 1.900, þ.e. stofn til fjármagnstekjuskatts reiknast með sama hætti og ef hinn látni hefði selt.

Eignir eða heimilisfesti erlendis

Erfðir geta heyrt undir lögsögu fleiri en eins ríkis. Því er ekki alltaf ljóst hvort íslensk lög gilda um skiptin sjálf eða lög erlends ríkis eða hvort lög erlends ríkis gilda um skiptingu eða erfðafjárskattlagningu tiltekinna eigna sem staðsettar eru erlendis, s.s. fasteignir. Slík mál þarf því alltaf að skoða sérstaklega. Framkvæmd bendir til þess að ef erfðafjárskattur er réttilega gerður upp í heimaríki hins látna þá leggist ekki frekari skattur á hér á landi. En ef vanhöld eru á því getur það komið upp að tekjuskattur leggist á hér á landi, sambærilegur launaskatti sem er mun hærri skattlagning en ef erfðafjárskattur ætti við.

Bjarnfreður Ólafsson og Jón Elvar Guðmundsson eru meðeigendur og lögmenn á LOGOS .