Ríkið hefur með höndum verkefni sem verða ekki fjármögnuð öðruvísi en með skattheimtu af einhverju tagi. Eðlilegt er að ágreiningur sé með okkur um hver þessi verkefni eiga að vera. Skattar eiga hins vegar að gegna því eina hlutverki að afla ríkinu tekna. Um þetta eru sumir vinstri menn ósammála mér og telja réttlætanlegt að nota skatta til þess að ná fram markmiðum sem þeim tekst ekki að ná með öðrum hætti.
Nú í seinni tíð hafa skattar verið lagðir á í ríkum mæli með vísan til loftslags. Þannig eru skattar notaðir til neyslustýringar en grundvallarhlutverki skatta sem tekjuöflun ríkissjóðs kastað fyrir róða. Skattar á bíla hafa verið þessu marki brenndir undanfarin 15 ár.
Um áramótin var gengið lengra en áður í því að beita skattkerfinu í nafni loftslagsmála. Ekki treystu menn sér þó inn á þing með málið að þessu sinni heldur nýttu sér bakherbergi skattkerfisins.
Hlunnindi
Lög um tekjuskatt og önnur lög um opinber gjöld eru afdráttarlaus um það að hvers kyns hlunnindi eru skattskyld. Meginreglan er að hlunnindi skuli metin til tekna á markaðsvirði, þ.e. því verði sem það hefði kostað viðtakanda hlunninda að kaupa, leigja eða greiða fyrir afnot sem féllu til hans. Skatturinn gefur út um hver áramót skattmat sem kveður á um hvernig reikna skuli út virði hlunninda. Nú hefur þetta hlunnindamat verið tekið til kostanna af þeim sem vilja nota skattkerfið til einhvers annars en því er ætlað.
Bifreiðahlunnindi orðin stýritæki
Meðal annars vegna hárra skatta er eftir nokkru að slægjast fyrir launamenn að koma því þannig við að launagreiðandi sjái þeim fyrir bifreið og eldsneyti á hana. Þetta er algengt fyrirkomulag þar sem launþegi þarf að nota bíl að einhverju leyti í þágu atvinnurekanda.
Árið 2019 fór Skatturinn að taka tilliti til rafbíla í þeim tilvikum er launamaður sér bílnum fyrir orku. Í tilviki rafbíla lækkaði hlunnindamatið um 1% en í tilviki bensínbíla hafði hlunnindamatið löngum lækkað um 6%. Rafmagn er jú ódýrara en bensín m.a. vegna skattlagningar.
Í júlí síðastliðnum varð hins veruleg breyting hér á. Hlunnindamat vegna bensínbíla er nú skyndilega miklu hærra en rafbíla. Matið er nú 28% af verðmæti bensínbíls en 20% fyrir rafbíl í þeim tilvikum er atvinnurekandi greiðir allan kostnað. Greiði launþegi rekstrarkostnað fer mati í 22% vegna bensínbíla en 16% vegna rafmagnsbíla.
Skyndileg breyting á hlunnindamati á miðju ári vekur ein og sér upp spurningar um gagnsæi, tilefni og nauðsyn og formfestu sem æskilegt er að skattaframkvæmd lúti. Er breytingin útskýrð með vísan í aðgerðaáætlun um loftslagmál þar sem markmiðið er að „gera rafmagnsbíla,- vetnis- og metabíla hagstæðari.“
Efnislega kallar þessi breytinga hins vegar á nánari skýringar í ljósi lögbundin hlutverks „hlunnindamats“ sem er að meta hlunnindi til raunverulegra verðmæta. Lögin veita stjórnvöldum ekkert svigrúm til þess að nota hlunnindamat í pólitískri stefnumótun eða til að reyna að ná markmiðum sem menn telja æskileg á hverjum tíma.
Skattar þurfa að vera málefnalegir
Sú breyting sem gerð var á hlunnindamati 2019 byggði á málefnalegum grunni. Nýjasta breytingin virðist hins vegar ganga í þveröfuga átt og metur hlunnindi ekki að verðleikum.
Hversu mjög sem menn óska þess að rafbílavæðingin gangi hraðar þá breytir það ekki þeirri staðreynd að rekstrarkostnaður þeirra (utan orkugjafans), þ.e. afskriftir, hjólbarðar, viðgerðir, tryggingar, eru enn sem komið er hærri en vegna bensínbíla.
Ekki verður því annað séð en að hærra skattmat bensín- og Dieselbíla en rafbíla byggi á ómálefnalegum forsendum.
Með breyttu og skökku hlunnindamati er þannig reynt að þvinga atvinnurekendur til að velja dýrari kostinn.
Höfundur er lögmaður.