Það er góð og gild venja þeirra sem eru hallir undir borgaraleg gildi að hefja nýtt ár á að benda á slagsíðu og vanhugsaðar efnahagsráðleggingar höfunda Áramótaskaupsins.Því er ekki úr vegi að halda í þá ágætu hefð og rýna í annars bráðskemmtilegt skaup.
Helst er það sígilt minni höfunda Skaupsins um að stjórnvöld hafi svelt heilbrigðiskerfið sem sé að hruni komið og draumsýn um að verulega aukin innheimta hins opinbera af sjávarútveginum myndi leysa þann vanda.
Þetta minni birtist í einu atriði Skaupsins um draumfarir sjúklings á Landspítalanum. Í draumnum vaknar sjúklingurinn við ástand sem hagfræðideild leiklistarsviðs Listaháskóla Íslands telur að hefði raungerst hefði frjálsa framsalið á aflaheimildum ekki verið samþykkt á sínum tíma: Heilbrigðiskerfið svo vel fjármagnað að sjúklingum bjóðast þriggja rétta máltíðir, ríkið greiðir alla sálfræðiþjónustu og rúsínan í pylsuendanum var að búið var að kolefnisjafna allt heila klabbið.
Vissulega er um ágætt grín að ræða en rétt er að skoða þetta ofan í kjölinn. Ekki síst vegna þess að fjöldi flokka á Alþingi virðist taka kenningar hagfræðideildar leiklistarsviðs LHÍ alvarlega. Í fyrsta lagi er ekki hægt að færa góð rök fyrir því að heilbrigðiskerfið sé vanfjármagnað. Vissulega eiga stjórnendur heilbrigðiskerfisins við vanda að etja. En hann snýr að skipulagningu og stjórnun. Í því samhengi má benda á að Björn Zoëga, forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi og ráðgjafi heilbrigðisráðherra og stjórnarformaður Landspítalans, sagði á mánudag í viðtali á Ríkisútvarpið vanda Landspítalans og heilbrigðiskerfisins ekki snúast um fjármagn heldur skipulag. Landspítalinn væri vel fjármagnaður.
Enda hafa útgjöld til heilbrigðismála aukist verulega á undanförnum árum og aldrei mælst hærri en árið 2021, hvort sem er að raunvirði eða sem hlutfall af landsframleiðslu. Hlutfall útgjalda ríkissjóðs til heilbrigðismála nam tæpum 9% árið 2021 en hlutfallið fór lægst á síðasta aldarfjórðungi niður í 7,1% árið 2011. Spýta átti enn frekar í samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs og auka útgjöld um 5,5% í ár frá því í fyrra að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum.
Heilbrigðisútgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu er vissulega ófullkomin leið til samanburðar. Ef gera á raunhæfan samanburð á útgjöldum ríkja er mikilvægt að tekið sé tillit til aldurssamsetningar og ólíkra kerfa. Þegar það er gert sést að útgjöld hér á landi til heilbrigðismála eru næst hæst miðað við önnur Norðurlönd. Hlutfallið er 9,5% hér á landi en 9,7% í Noregi sem trónir í efsta sætinu í samanburðinum.
Vissulega má velta fyrir sér hvort það sé innistæða fyrir þessari þróun. Ríkissjóður var rekinn með um 120 milljarða halla í fyrra. Gert er ráð fyrir 90 milljarða halla í ár. Ekki er stefnt að afgangi hjá ríkissjóði fyrr en árið 2027.
Þetta þýðir að afkoma ríkissjóðs er háð því að grunnatvinnugreinarnar þrífist og dafni. Sjávarútvegurinn stendur sterkum stoðum og hefur gert um langa hríð. Lykilinn að þeim árangri má finna í frjálsa framsalinu sem áður var vísað til. Það leiddi til mikillar hagræðingar í greininni sem svo leiddi til þess að hefðbundnar veiðar og vinnsla umbreyttust í tækniþróaðan matvælaiðnað í fremstu röð.
Þessi iðnaður skapar þjóðarbúinu mikil verðmæti sem skilar sér með einum eða öðrum hætti til landsmanna. Öryggi sjómanna er meira og kolefnispor sjávarútvegsins fer sífellt minnkandi. Ekki nóg með það hefur framgangur hans undanfarna áratugi orðið farvegur fyrir vöxt fjölmargra hátæknifyrirtækja sem skapa mikil verðmæti og eftirsótt störf. Nægir að nefna fyrirtæki eins og Marel, Kerecis, Hampiðjuna, Genís, Skagann 3X og Völku í því samhengi.