Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri Dalabyggðar, kvaðst í viðtali við Vísi ósáttur við svör Samkaupa um rekstur verslunar í Búðardal. Sveitarstjórn hafi skorað á fyrirtækið að opna dagvöruverslun í stað Krambúðarinnar.

Svar Samkaupa, sem sveitarstjórinn var ósáttur við, var að ekkert nema tap fáist af slíkum rekstri. Í svari Gunnars Egils Sigurðssonar, forstjóra Samkaupa, til sveitarstjórnar segir að rekin hafi verið dagvöruverslun í Búðardal frá 2017 til 2020 sem ávallt hafi skilað tapi. Sveitarstjórnin gefst þó ekki upp og hefur boðað Samkaup á fund.

Hrafnarnir vilja benda sveitarstjórninni á að Samkaup var rekið með hátt í 200 milljóna tapi í fyrra og má því illa við að opna dagvöruverslun sem fyrirséð er að muni blæða peningum.

Jafnframt furða hrafnarnir sig á því að sveitarstjórar, verkalýðsforingjar og aðrir forkólfar séu í auknum mæli farnir að skipta sér af rekstri fyrirtækja. Eftirminnilegt er þegar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, boðaði stjórnendur Grundarheimilanna á fund til að mótmæla uppsögnum. Þegar betur var að gáð er aftur á móti eðlilegt að Grundarheimilin, sem hafa verið rekin með bullandi tapi undanfarin ár, leiti leiða til að hagræða.

Hrafnarnir eru þó lausnamiðaðir og leggja því til að Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, höggvi á hnútinn með því að beita sér fyrir opnun Kjarvals verslunar í sveitarfélaginu.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.