Frétt Ríkisútvarpsins í gær um að Samkeppniseftirlitið hafi til rannsóknar samkeppnishindranir í heilbrigðiskerfinu og hvernig var staðið að samningum um hugbúnað sem ríkið keypti fyrir milljarða af skattfé borgarana hefur vakið furðu litla athygli. Sérstaklega í ljósi þess að það snýr að embættisverkum Ölmu Möller landlæknis og oddvita Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.
Eins og fram kemur í frétt Ríkisútvarpsins þá er Samkeppniseftirlitið meðal annars með til skoðunar hugbúnaðarkerfið Sögu, sem er stærsta og útbreiddasta kerfið í heilbrigðiskerfinu. Kerfið er í eigu dótturfélags Origo og hafa fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum lýst því yfir að ekkert þeirra hafi fengið tækifæri til að þess að komast að borðinu meðan að Alma hefur gegnt embætti landlæknis.
Eins og fjallað var um í Viðskiptablaðinu kærði Kara Connect kærði innkaup landlæknis af Origo og Sensa árið 2022 vegna þróunar Heklu heilbrigðisnets og Heilsuveru. Kara taldi að viðskiptin væru það umfangsmikil að það væri í andstöðu við lög um opinber innkaup að ekkert útboð hefði farið fram.
Landlæknir ákvað að stefna Köru Connect
Kærunefnd útboðsmála komst að þeirri niðurstöðu að innkaupin hefðu verið ólögmæt og sektaði landlæknisembættið um 9 milljónir króna. Auk þess þurfti embættið að greiða 2 milljónir í málskostnað til Köru Connect. Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í vikunni þá staðfestir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, að það hafi verið ákvörðun landlæknis um að stefna Köru Connect fyrir dómstólum vegna úrskurðarins.
Líkt við stuðningsfulltrúann
Eyþór Kristleifsson, forstjóri Skræðu sem er hugbúnaðarfyrirtæki á sviði heilbrigðistækni, vandar svo ekki Ölmu kveðjurnar í aðsendri grein sem birtist á Vísi í vikunni.
Hann líkir Ölmu við Dag B. Eggertsson stuðningsfulltrúa Samfylkingarinnar í kosningunum í grein sinni og segir:
„Líkt og flokksfélagi Ölmu þá hefur hún staðið fyrir kaupum á hugbúnaðarlausnum í ígildi stafrænna stráa. Í viðtalinu nefndi Alma ekki einu orði vildarvin sinn Origo/Helix sem hún heldur áfram að greiða hundruð milljóna án fyrirliggjandi samninga. Þær greiðslur eru á hennar ábyrgð, hvað sem líður gömlum samningum. Þá þakkar Alma sér að útboð séu hafin á vegum embættisins, þegar hið rétta er að það var fyrir kærur hagsmunaaðila, þ.m.t. til ESA og fyrir úrskurði Kærunefndar útboðsmála að embættið var neytt til að endurskoða afstöðu sína.
Þannig eru það blóðugur, margra ára slagur og málaferli hagsmunaaðila sem hafa leitt til ákveðinna breytinga í stjórnsýslunni þó svo að ekki sé hægt að merkja raunverulegar hugafarsbreytingar skv. orðræðu Ölmu. Þannig gleymdi Alma alveg að geta þess að útboð fjarfundalausnar var kærð til Kærunefndar útboðsmála þar sem útboðið var sniðið að lausn sem embættið var búið að greiða fyrir og taka í notkun nokkrum árum áður í íslensku heilbrigðiskerfi. Að lokum, hvað sem Alma segir, þá segja gildandi samningar að Heklu kerfið sé í eigu Origo/Helix.“
Eyþór segir svo: „Það er því ekki að undra að það veki óhug undirritaðs ef Alma taki við heilbrigðisráðuneytinu þar sem miðstýringarstefnan og alræðishyggja í heilbrigðismálum á uppruna sinn hjá sjálfréttlættum embættismönnum og afvegaleiddum ráðherrum.“
Spor Ölmu ættu að hræða Viðreisn
Eins og fram hefur komið hefur Kristrún Frostadóttir ítrekað sagt að gerði verði krafa um að Alma verði heilbrigðisráðherra taki Samfylkingin sæti í ríkisstjórn. Allar líkur eru á því að Samfylkingin og Viðreisn muni mynda hryggjarstykkið í næstu ríkisstjórn. Spor Ölmu hljóta að hræða marga.
Þau ættu sérstaklega að hræða þá sem styðja Viðreisn vegna áherslu flokksins í opinberum innkaupum. Þannig sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður flokksins í kappræðum Morgunblaðsins í gær að hægt væri að spara tugi milljarða í opinberum innkaupum með bættri stjórnsýslu. Sá sparnaður mun ekki nást að mati Týs meðan að Alma Möller gegnir stöðu heilbrigðisráðherra.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.