Hrafnarnir sáu Gunnar Dofra Ólafsson samskiptastjóra Sorpu rífa hár sitt og skegg í fréttum Stöðvar 2 á mánudag.
Samskiptastjórinn er ekki ánægður með þá þróun að fólk geri sér ferð í endurvinnslustöðvar Sorpu og taki eitt og annað sem það vanhagar um úr nytjagámunum sem fólk skilur eftir, eitt og annað nýtilegt.
Hröfnunum þykir þetta merkileg aðför Sorpu að hringrásarhagkerfinu sem hefur svo mikið verið mært undanfarin ár. Eins og fram kemur á vef Stjórnarráðsins er markmiðið með hringrásarhagkerfi að draga úr auðlindanotkun, auka líftíma auðlinda jarðar og koma í veg fyrir að efni og hlutir hverfi úr hagkerfinu sem úrgangur. Hrafnarnir telja augljóst að það sé í anda þessara markmiða að fólk mætir sjálft í nytjagámana og skeri þar með út þann óþarfa millilið sem verslunin Góði hirðirinn er í þessu samhengi.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 13. desember 2023.