Fjölmiðlanefnd svipti loks hulunni af því á dögunum hvaða íslensku fjölmiðlar væru nógu merkilegir til að hljóta styrk á kostnað skattgreiðenda í boði Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra rafrænna skilríkja og Íslenska dansflokksins.

Nefndin var óvenju sein að greina frá ákvörðun sinni en í hin tvö skiptin sem tilkynnt hefur verið um styrkhafa hefur það verið gert í september. Hrafnarnir eru meðvitaðir um mikilvægi Fjölmiðlanefndar og fyrirgefa henni því seinaganginn og sýna honum í raun mikinn skilning.

Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis, hefur verið á ferð og flugi um landið að kenna börnum að lesa fréttir og fræða þau um hætturnar sem leynast í hverju horni samfélagsmiðla. Þá hefur framkvæmdastjóri nefndarinnar, Elfa Ýr Gylfadóttir, staðið í stafni í mikilvægrar baráttu fyrir bættum kjörum forstöðumanna ríkisins.

Auk þess hefur nefndin það mikilvæga eftirlitshlutverk að óskráð hlaðvörp fái ekki að þrífast óáreitt. Það gefur því augaleið að nefndin hefur margt betra við tíma sinn að gera en að ákvarða niðurgreiðslur til fjölmiðla.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.