Í vikunni, tilkynnti Sýn um afkomu fyrsta ársfjórðungs 2024. Herdís Dröfn Fjeldsted, nýr forstjóri fyrirtækisins, boðar vegferð breytinga undir merkjum skilvirkni, vaxtar og samvinnu. Hún hefur upplýst markaðsaðila um sparnaðaraðgerðir sem sagðar eru nema 380 milljónum króna á ári. Þetta virðist þó aðeins byrjunin. Stórar tölur í samhengi hlutanna.

Herdís hefur svo sannarlega þá reynslu sem þarf til að leiða umbreytingaferli fyrirtækisins og veigrar ekki fyrir sér að gera nauðsynlegar breytingar. Mikilvægt er að valinn maður sé í hverju rúmi, sett séu skýr arðsemismarkmið og unnið sé eftir mælanlegri aðgerðaáætlun. Nýlegar ráðningar hafa verið gerðar í þessa veru, þar sem þeir Eðvald Ingi Gíslason (fjármálastjóri) og Gunnar Guðjónsson (frkv. stjóri Endor), hafa tekið sæti í framkvæmdastjórn Sýnar.

Fjármunum skilað til hluthafa

Áður hefur verið boðað að hagnaður af sölu Ljósleiðarans renni til hluthafa með einhverjum hætti. Hugsanlega verður hægt að hefja endurkaup hlutabréfa í haust, þegar söluhagnaður vegna Ljósleiðarans hefur skilað sér að fullu. Þannig verði nýleg heimild aðalfundar til kaupa á 10% af útistandandi hlutafé nýtt. Ef tekið er mið af markaðsvirði fyrirtækisins í dag, væri þetta um helmingur af bókfærðum söluhagnaði og ríflega 10% af markaðsvirði fyrirtækisins í dag.

„Bókfærður hagnaður vegna sölu Ljósleiðarans á síðasta ári nam um 2,4 milljörðum króna og fram hefur komið í máli stjórnenda að til standi að skila þeim ávinningi til hluthafa.“

„Skin in the game“

Í þeim umbreytingum sem framundan eru hjá Sýn, er nauðsynlegt að hagsmunir hluthafa og starfsmanna séu samtvinnaðir. Á nýlegum aðalfundi fyrirtækisins, samþykktum við hluthafar kaupréttaráætlun fyrir alla starfsmenn. Markmið áætluninnar er að tengja saman hagsmuni starfsfólks við afkomu og langtímamarkmið fyrirtækisins og hluthafa þess. Fyrir komandi vegferð breytinga, er mikilvægt að stjórnendur hafi „skin in the game“ eins og stundum er sagt. Hluti stjórnenda hefur einnig fjárfest beint í fyrirtækinu og er það góðs viti.

Halldór Kristmannsson
Halldór Kristmannsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sterk rök fyrir afskráningu

Fyrir nokkrum vikum stóð markaðsvirði Sýnar í aðeins 9,5 milljörðum króna og miðað við gengi dagsins stendur það nú í um 10,5 milljörðum króna. Ég hef litið á þetta sem tækifæri og byggt upp hlutabréfastöðu í fyrirtækinu á þessum tíma. Frá því ég kom aftur inn í eigendahóp Sýnar, eftir um tveggja ára hlé, hef ég skoðað gaumgæfilega kosti afskráningar. Þegar væntanlegt verðmæti undirliggjandi eigna er meira en tvöfalt markaðsvirði fyrirtækisins, gefur auga leið að lítið gagn er af kostnaði og flækjum hlutabréfamarkaðarins.

Ég tel eðlilegt að stærstu eigendur fyrirtækisins hugleiði alvarlega að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð, í ljósi núverandi verðlagningar á markaði.

Höfundur rekur eigið ráðgjafafyrirtæki, Aviva Communication og sinnir fjárfestingum í skráðum og óskráðum verðbréfum og fasteignum. Hann og tengdir aðilar eru hluthafar í Sýn, með tæplega 4% eignahlut.