Ég heyri innan úr fyrirtækjum að umræðan á kaffistofunni er komin inn á mannauðssviðið.
„Hvernig á ég að hafa íbúðalánið mitt?“
„Það er allt orðið svo dýrt, ég verð að fá launahækkun“
„Á ég að byrja strax að taka út lífeyririnn og þarf ég að skrá mig í tilgreinda séreign?“
Það er ekki skrítið að þetta vefjist fyrir fólki og leitað sé aðstoðar innan vinnustaðarins. Það hendist allt fram og til baka í íslensku efnahagslífi, valkostum sem fólk stendur frammi fyrir fjölgar sífellt og það gerir rekstur heimilis allt annað en auðveldan. Auðvitað tekur fólk áhyggjur af sínum persónulegu fjármálum með sér í vinnuna og í sífellt flóknara fjármálaumhverfi eykst þörfin á stuðningi og leiðbeiningum. Við vinnum ekki á þeirri þörf með pizzu á föstudegi eða gjafabréfi í nudd, en einhvern veginn þarf að bregðast við.
Hvað ef ekkert er gert?
Fjárhagsáhyggjur og óöryggi varðandi fjármál eru algengir kvíðavaldar og þarf varla að fjölyrða um þau áhrif sem þeir hafa á líðan fólks. Því er ekki í boði að skila auðu þegar starfsfólk stendur í slíkri glímu. En þetta snýst ekki bara um möguleg áhrif á líðan og frammistöðu heldur er hætt við auknu ósætti við núverandi kjör. Kröfur um launahækkanir aukast sem og ásókn í önnur betur borgandi störf.
Þetta eru ekki fabúleringar í mér, heldur raunveruleg viðfangsefni mannauðsfólks sem ég hef rætt við.
Góðu fordæmin
Fjöldi íslenskra vinnustaða sinnir þessu blessunarlega af stakri prýði og gengur lengra í að bæta fjárhag starfsfólks síns en aðeins með millifærslum beinharðra peninga. Algengt er að boðið sé upp á námskeið á vinnustaðnum eða greitt fyrir mætingar starfsfólks annars staðar. Algengust eru námskeið um persónuleg fjármál, íbúðalán og lífeyrismál, hvort sem er í tengslum við starfslok eða uppbyggingu lífeyris. En í auknum mæli er sóst eftir fræðslu um íslenskt efnahagslíf og fjármál hér á landi fyrir erlent starfsfólk.
Sérlega áhugavert þótti mér þó þegar vinnustaður nokkur óskaði eftir áliti á núverandi efnhagsumhverfi og væntingum um þróun næstu mánaða. Ástæðan var tvíþætt; annars vegar svo meta mætti mögulega eftirspurn og kaupmátt viðskiptavina en einkum til að geta skilið betur fjárhag starfsfólksins. Hvaða áskoranir bíða þeirra fólks þegar það kemur heim úr vinnunni? Þessa nálgun mættu fleiri taka sér til fyrirmyndar.
Bætt fjármálalæsi
Við metum fjárhag okkar ekki út frá krónunum í launaumslaginu heldur hvernig þær nýtast. Það er sannleikskorn í gömlu tuggunni um að fjármál snúist um hegðun umfram annað. Heilbrigða fjármálahegðun köllum við fjármálalæsi og við fæðumst fæst fluglæs. Um er að ræða lærða hegðun sem byggir á skilningi á fjármálum og efnahagsmálum, aga, skipulagi og einföldum prinsippum.
Bætt fjármálalæsi eykur verðmæti þeirra launa sem greidd eru, dregur úr áhættu í heimilisrekstrinum, vanlíðan og kvíða. Þarna getur vinnustaðurinn hjálpað og er í kjörstöðu til þess. Fjárfesting í slíkri aðstoð skilar sér að líkum í mun meiri ávinningi fyrir starfsfólkið en væri sömu fjármunum aðeins veitt í beinar launahækkanir.
Dæmi um ávinning
Umtalsverður hluti þeirra launa sem greidd eru á Íslandi í hverjum mánuði rennur í afborganir og himinháan kostnað af óþarfa neyslulánum. Fræðsla um slík mál og færni við að haga heimilisfjármálum með skipulögðum og ábyrgum hætti eykur stórlega líkurnar á að starfsfólk komi til með að eiga stærri hluta sinna launa en ella. Það getur þá forðast greiðsludreifingar og yfirdrátt á 17% vöxtum, himinháar vaxtagreiðslur af of dýrum bílum og aðra sóun.
Starfsfólk þeirra fyrirtækja sem bjóða upp á fjármálafræðslu er skiljanlega alsælt með framtakið. Hvort sem það er betur búið undir fæðingarorlof eða eftirlaunaaldurinn, sparar milljónir með betra íbúðaláni eða bættum heimilisrekstri er ávinningurinn áþreifanlegur og augljós.
Það kannski óþarfi að hætta að bjóða upp á pizzu á föstudögum, en væri ekki kjörið að læra eitthvað í leiðinni?
Höfundur er fyrirlesari og fjármálaráðgjafi.