Týr hélt að majónesfólkið í Samkeppniseftirlitinu gæti ekki komið sér lengur á óvart. Þar skjátlaðist honum.

Týr hélt að majónesfólkið í Samkeppniseftirlitinu gæti ekki komið sér lengur á óvart. Þar skjátlaðist honum.

Viðbótarumsögn eftirlitsins um fjárlög næsta árs sem birtist á vef Alþingis í vikunni jafnast á við majónesskýrsluna miklu. Segja má að umsögnin sé einhvers konar áramótaskaup SKE og bráðskemmtilegt sem slíkt.

Þar kemur fram að samkeppniseftirlit á Íslandi sé í uppnámi þar sem fjárveitingar hafa ekki fylgt hagvexti undanfarin ár. Það er að segja þá telja stjórnendur eftirlitsins að fjárframlög þurfi að vera ákveðið hlutfall af landsframleiðslu.

Þetta ætti ekki að koma á óvart. Að minnsta kosti ekki þeim sem fylgdust með ritdeilu Ragnars Árnasonar prófessors emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands og Páls Gunnars Pálssonar forstjóra Samkeppniseftirlitsins til lífstíðar í Morgunblaðinu fyrr á árinu. Í þeirri ritdeilu kom fram að Páll Gunnar virðist ekki skilja hugtök á borð við stærðarhagkvæmni og áhrif þess á samkeppnisumhverfi.

Í umsögninni kemur fram að Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi telji rekstur Samkeppniseftirlitsins vera til fyrirmyndar og auk þess hafi félagi hans, Jón Þór Sturluson, reiknað það út að ákvarðanir skili landsmönnum 20 milljarða á ári hverju í hreinan ábata. Með öðrum orðum er rekstur SKE að skila þjóðarbúinu álíka miklu og
meðalloðnuvertíð á ári hverju.

Sem kunnugt er þá sýndu þeir Guðmundur Björgvin og Jón Þór að þeir eru öðrum fremri að meta verð allra hluta en virði einskis á árinu. Því veltir Týr fyrir sér hvort tekið hafi verið tillit til þessara tíu milljarða sem Samkeppniseftirlitið beitti sér fyrir að rynnu úr vösum íslenskra lífeyrissjóða til franskra eftirlaunaþega með inngripum sínum í söluna á Mílu.

En standi fullyrðingar Samkeppniseftirlitsins í umsögninni skilar hver króna sem ríkið lætur Pál Gunnars og hans fólk fá sér þrjátíufalt til baka. Þetta er tilboð sem fæstir geta hafnað.

Svo verður auðvitað að reikna til verðmætis það mikla skemmtanagildi sem starf Samkeppniseftirlitsins skapar fyrir landsmenn. Nægir að nefna majónesskýrslu eftirlitsins í því samhengi.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 13. desember 2023.